þriðjudagur, 18. janúar 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Manneldisvinnsla er hafin og hörkuveiði

Svavar Hávarðsson
14. janúar 2022 kl. 12:14

Vinnsla á loðnu til manneldis er hafin í fiskiðjuverinu. Mynd/Hákon Ernuson

Loðnuveiðin er smollin í gírinn og skipin fylla sig á fáum hollum. Manneldisvinnsla er hafin en eini skugginn sem fellur á er covid faraldurinn.

Afar góð loðnuveiði var í gær og eru skipin einnig búin að vera að fá góð hol í nótt. Manneldisvinnsla hófst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í gær og var þá frystur afli úr Vilhelm Þorsteinssyni EA.

Frá þessu segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

Segir þar að verið að frysta úr Vilhelm en Hákon EA er kominn til hafnar með frystingarloðnu og síðan kemur Bjarni Ólafsson AK í kjölfar hans. Barði NK fyllti í gærkvöldi og er á leið á Akranes með aflann. Þá fyllti Polar Amaroq í tveimur holum og er einnig á landleið. Beitir NK og Polar Ammassak eru á miðunum og er jafnvel líklegt að þau skip sigli með aflann. Þá hefur Börkur NK hafið veiðar á ný eftir að hafa lokið mettúr. Sem dæmi um veiðina eins og hún er nú þá fékk Beitir 780 tonn í hádeginu í gær eftir að hafa einungis togað í um klukkustund.

Í frétt Síldarvinnslunnar er rætt við Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóra í fiskiðjuverinu í Neskaupstað, og spurði hvernig vertíðin legðist í hann.

„Hún leggst vel í mig. Vinnsla hjá okkur hófst í gær og það er verið að keyra allt í gang. Nú er svo sannarlega nóg hráefni en það tekur alltaf dálítinn tíma í upphafi vertíðar að fá allt til að snúast eðlilega. Við hófum að frysta úr Vilhelm Þorsteinssyni í gær og síðan verður fryst úr Hákoni og Bjarna Ólafssyni. Loðnan hefur verið frekar smá en vitað er að hún er stærri í Bjarna Ólafssyni. Það tekur alltaf svolítinn tíma í upphafi vertíðar að slípa allt saman í framleiðsluferlinu en þetta fer vel af stað. Í fiskiðjuverinu er unnið á þremur vöktum og eru 22 starfsmenn á hverri vakt. Hér búa menn sig undir hörkuvertíð. Helsta áhyggjuefnið nú um stundir er covid,“ segir Jón Gunnar.