sunnudagur, 7. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Meðaflinn gæti stöðvað útflutning

Guðsteinn Bjarnason
22. október 2020 kl. 07:00

Málið varðar kröfur Bandaríkjanna um aðgerðir til að lágmarka áhrif fiskveiða og fiskeldis á sjávarspendýr - ekki síst sel. Mynd/Þorgeir Baldursson

Ísland þarf að mæta kröfum Bandaríkjanna fyrir 1. mars næstkomandi. Ef það verður ekki gert, lokast á útflutning flestra íslenskra fiskafurða til Bandaríkjanna 1. janúar 2022 og endurskoðun ekki möguleg fyrr en að fjórum árum liðnum.

Að öllum líkindum loka Bandaríkin á innflutning flestra íslenskra fiskafurða í byrjun árs 2022, takist Íslendingum ekki að sýna fram á að meðafli spendýra standist nýjar kröfur Bandaríkjanna.

„Það er vá fyrir dyrum fyrir Íslands hönd í sambandi við fiskútflutning til Bandaríkjanna,“ sagði Þorlákur Halldórsson, formaður Landssambands smábátaeigenda (LS), á aðalfundi sambandsins í síðustu viku.

„Að öllu óbreyttu þá mun lokast á útflutning flestra íslenskra fiskafurða til Bandaríkjanna 1. janúar 2022. Það er mjög alvarlegt mál,“ sagði Þorlákur.

Að falla á tíma

„Tíminn líður. Fyrsti mars verður kominn áður en við vitum af. Þegar fyrsti mars verður kominn þá getur Ísland ekki skilað inn gögnum eftir þann tíma til þess að reyna að fá þessu hnekkt. Það er ekki möguleiki að fá þessum úrskurði hnekkt, engar undanþágur í boði fyrir Ísland og ekkert hægt að gera. Næsti gluggi opnast ekki fyrir okkur fyrr en eftir fjögur ár, það er fyrsta janúar 2026 þannig að ef það verður lokað á okkur, þá verður lokað á okkur í þessi fjögur ár og þangað til málin verða tekin upp að nýju. Ef við verðum búnir að uppfylla þessar kröfur.“

Hann segir fulltrúa LS hafa átt marga fundi með ráðuneytinu og fleirum um það hvernig hægt væri að leysa þetta mál, „og alltaf kemur sama niðurstaðan. Þetta er óleysanlegt mál.“

Heyrst hafi raddir innan kerfisins um „að við ættum hreinlega að banna grásleppuveiðar á Íslandi fyrir þessa hagsmuni. Landssamband smábátaeigenda og stjórnarmenn þess eru alfarið á móti þeim vinnubrögðum að við skulum fórna heilum veiðibúskap okkar félagsmanna fyrir þessa hagsmuni.“

Í skriflegu svari frá Ástu Sigrúnu Magnúsdóttur, upplýsingafulltrúa Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, segir að „bann á innflutning ætti aðeins við um afurðir úr þeim veiðum þar sem meðafli er yfir mörkum. Hvernig nákvæmlega það er túlkað á eftir að reyna á“.

Langt yfir meðaflamörkum

Bandaríkin séu fyrst núna að útfæra reglurnar fyrir aðra en sjálfa sig. Ljóst sé þó „að meðafli í grásleppuveiðum er langt yfir meðaflamörkum í báðum selastofnum.“

Hún staðfestir að „síðasti skilafrestur á upplýsingum um meðafla og aðgerðir stjórnvalda til að lágmarka hann og uppfylla viðeigandi kröfur um vernd sjávarspendýra við veiðar og fiskeldi er 28. febrúar 2021. Í ársbyrjun 2022 (1. janúar) taka reglurnar gildi, þ.e. frá og með þeim degi munu sjávarafurðir úr veiðum eða eldi sem ekki dæmast hafa sömu eða sambærilega vernd sjávarspendýra og bandaríski iðnaðurinn ekki fá innflutningsleyfi til USA.“

Samráðshópur hafi verið að störfum og þar sé unnið að mótun viðbragða við aðgerðum Bandaríkjanna. Í samráðshópnum eru fulltrúar frá Hafrannsóknarstofnun, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Landsambandi smábátaeigenda, utanríkisráðuneytinu og Samtökum smærri útgerða.

„Samráðshópnum er ætlað að vera til ráðgjafar um samskipti íslenskra stjórnvalda við Bandaríkin vegna málsins, vera vettvangur til skoðanaskipta og mótunar viðbragða sem og að miðla upplýsingum til greinarinnar um kröfur Bandaríkjanna um aðgerðir til að lágmarka áhrif fiskveiða og fiskeldis á sjávarspendýr.“

Ásta Sigrún tekur fram að engin umræða hafi verið um að banna grásleppuveiðar.

Skammgóður vermir

Á aðalfundi LS í síðustu viku fagnaði Þorlákur því að endurheimt MSC-vottunar á grásleppu sé nánast í höfn. Hún var felld niður fyrir tæpum tveimur árum vegna þess að meðafli sela og fugla mældist of mikill til að það stæðist kröfur vottunaraðilans um sjálfbærar veiðar. Nú hefur verið bætt úr því, og vottun í sjónmáli á næstu vikum þar sem veiðarnar og stjórn þeirra standast kröfur MSC, komi ekkert upp annað á. Það gæti þó orðið skammgóður vermir vegna bandarísku löggjafarinnar.

Nokkuð langt er síðan Bandaríkin samþykktu þessi lög og greindu frá því hvenær ákvæði þeirra tækju gildi. Bæði íslensk stjórnvöld og sjávarútvegsgeirinn hafa gert sér grein fyrir þessu en töluverð óvissa hefur verið um hver áhrifin yrðu í raun á íslenskan útflutning til Bandaríkja. Ekki er að sjá að bandarísk stjórnvöld hafi lagt neina sérstaka áherslu á að útrýma þeirri óvissu.

Fiskifréttir hafa áður fjallað um þetta mál. Í nóvember 2017 var rætt við Brynhildi Benediktsdóttur, sérfræðing í utanríkisráðuneytinu, sem hafði þá verið að kynna sér þessar hertu kröfur Bandaríkjanna til innflutnings á fiski.

„Við erum rétt að sjá toppinn á ísjakanum og þetta verður eiginlega verra eftir því sem maður sér meira,“ sagði Brynhildur þá.

Forsagan

Forsagan er sú að snemma á áttunda áratugnum settu Bandaríkin sér harla ströng lög til verndar sjávarspendýrum, Marine Mammal Protection Act, sem meðal annars fela í sér bann við því að stunda nokkrar þær fiskveiðar sem geta stofnað sjávarspendýrum í hættu.

Árið 2016 var bætt við þau svokölluðu innflutningsákvæði, sem setur öðrum ríkjum þau skilyrði að þau setji sér sambærilegar reglur við veiðarnar eins og Bandaríkin gera. Verði aðrar þjóðir uppvísar að því að sjávarspendýr veiðist til dæmis sem meðafli í veiðarfæri í nokkru magni eiga þær á hættu að missa leyfi til að flytja sjávarafurðir inn til Bandaríkjanna.

Bandaríkin hafa gefið út lista yfir veiðar allra þeirra þjóða sem selja fisk til Bandaríkjanna. Þar eru veiðarnar flokkaðar í leyfðar og ekki leyfðar út frá því hvort aðildarríkin þyki hafa uppfyllt kröfur bandarísku laganna.

Ísland er ekki eina landið sem stendur frammi fyrir þessum kröfum Bandaríkjanna. Noregur, Færeyjar, Grænland og Kanada stunda líka grásleppuveiðar og þeim fylgir meðafli sela sem væntanlega getur nú komið sér illa hvað varðar útflutning fiskafurða til Bandaríkjanna.