mánudagur, 27. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mest veitt af makríl í ágúst

15. september 2021 kl. 10:13

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Á 12 mánaða tímabilinu frá september 2020 til ágúst 2021 veiddust 480 þúsund tonn af botnfisktegundum og 540 þúsund tonn af uppsjávartegundum.

Landaður afli í ágúst 2021 var tæp 109 þúsund tonn sem er 17% minni afli en í ágúst 2020. Botnfiskafli var um 39 þúsund tonn sem er svipaður afli og í fyrra. Af botnfisktegundum var þorskur tæp 20 þúsund tonn. Uppsjávarafli var rúmlega 65 þúsund tonn sem er 26% minni afli en í ágúst 2020. Mest var veitt af makríl, eða rúm 63 þúsund tonn.

Þetta kemur fram í tilkynningu Hagstofu Íslands þar sem nálgast má nákvæma tölfræði tímabilsins. 

Á 12 mánaða tímabilinu frá september 2020 til ágúst 2021 var heildaraflinn tæplega 1.052 þúsund tonn sem er 4% meiri afli en á sama tímabili árið áður. Á tímabilinu veiddust 480 þúsund tonn af botnfisktegundum og 540 þúsund tonn af uppsjávartegundum.

Samkvæmt bráðabirgðatölum var afli strandveiðibáta samtals 12.142 tonn á strandveiðitímabilinu 1. maí til 20. ágúst 2021, en var 11.867 tonn árið 2020. Meginuppistaða strandveiðiaflans 2021 var þorskur eða 11.131 tonn og ufsi rúm 906 tonn.

Landaður afli í ágúst 2021, metinn á föstu verðlagi, lækkar um 8,8% samanborið við ágúst í fyrra.