laugardagur, 4. desember 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Metafli smábáta skilaði 26 milljörðum

Guðsteinn Bjarnason
22. október 2021 kl. 13:00

Löndun á Arnarstapa. Mynd/gugu

Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda: Arthur Bogason formaður sagði Landssamband smábátaeigenda byggt á hugsjónum sem enn lifi góðu lífi. Um heim allan eigi smábátar við keimlík vandamál að stríða.

Arthur Bogason var endurkjörinn formaður Landssamband smábátaeigenda (LS) í síðustu viku. Auk hans ávörpuðu þeir Örn Pálsson framkvæmdastjóri og Kristján Þór Júlíusson ráðherra fundinn.

Í ávarpi sínu á fundinum sagði Arthur Landssambandið byggt á hugsjónum sem enn lifi góðu lífi, en smábátafloti heimsins eigi alls staðar við keimlík vandamál að stríða: Gleypigang stórfyrirtækja og torræða stjórnsýslu.

Hann trúi því hins vegar að „í smábátaútgerðinni felist mikilvægar lausnir en ekki bara vandamál, ekki bara hérlendis heldur hvarvetna.“

LS hafi til dæmis verið „frumkvöðull hérlendis í því að draga inn í umræðuna notkun veiðarfæra, að botndregin veiðarfæri hefðu margföld áhrif í umhverfi hafsins samanborið við þau kyrrstæðu. Mér er enn í fersku minni að þetta taldi batterí stórútgerðar þess tíma beinlínis þess vert að gera gys að því.“

18 þúsund landanir

Örn Pálsson framkvæmdastjóri fór stuttlega yfir afrakstur nýliðins fiskveiðiárs. Þar kom fram að alls veiddu smábátar 85.500 tonn á nýliðnu fiskveiðiári og aflaverðmæti þess voru 26 milljarðar. Þarna er átt við alla smábáta, bæði krókaaflamarksbáta, smábáta í aflamarki, báta á strandveiðum og þá sem fóru á grásleppuveiðar.

Þar af veiddu 672 strandveiðibátar rúmlega 12 þúsund tonn, þar af 11.171 tonn af þorski og hefur ársafli í strandveiðum aldrei verið meir. Aflanum var landað í alls 51 höfn allt í kringum landið og samtals urðu landanirnar 18 þúsund. Flestar landanir voru á Patreksfirði og í Bolungarvík þar sem vel á þriðja þúsund tonnum var landað samtals.

Ekki á vísan að róa

Örn sagði stórauknar heimildir til loðnuveiða þetta árið væntanlega skila sér til smábáta. Atvinnu- og byggðakvótum upp á 5,3% sé ætlað að efla byggðir landsins og sá pottur „ætti með 662 þúsund tonna loðnukvóta að fitna nokkuð. Óumdeilt er að útgerð dagróðrabáta skapar þar flest störfin og umsetninguna. Stjórnvöld verða því að breyta áherslum varðandi nýtingu 5,3%, það er að línuívilnun og strandveiðar njóti forgangs.“

Kristján Þór Júliusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tók þó fram að engan veginn sé öruggt að aukinn loðnukvóti skili sér í 5,3% pottana.

Loðnan muni skila gríðarlegum verðmætum í þjóðarbúið en „þau 5,3% aflaheimilda sem dregin eru frá í loðnunni munu fara á skiptimarkaðina eins og þið þekkið, og það er bara með sama hætti eins og verið hefur.“ Algerlega óvíst sé „hvað kemur út úr skiptimarkaðnum varðandi þessar aflaheimildir, hverju þær munu skila í botnfiskheimildum.“

Strönduðu frumvörpin

Örn vék einnig máli sínu að Alþingi og sagði þar margt hafa breyst. Áður hafi stjórnvarfrumvörp runnið nánast án breytinga gegnum Alþingi, en hafi hvert stjórnarfrumvarpið á fætur öðru ekki fengist afgreitt í nefndum þingsins, þrátt fyrir að meirihluti þingmanna styddi ríkisstjórnina.

„Í flestum tilfellum síðast liðins árs hefur ágreiningurinn komið LS til góða,“ sagði Örn og nefndi þar frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingar á ákvæðum um atvinnu- og byggðakvóta í lögum um stjórn fiskveiða.

„Hefði frumvarpið orðið óbreytt að lögum væru 48 daga markmið LS í órafjarlægð þar sem veiðiheimildir til strandveiða hefðu minnkað og skrúfað væri fyrir möguleika á að bæta við. Strandveiðikerfið var því í verulegri hættu.“

LS mótmælti þessu frumvarpi og Örn segir að „allar tilraunir formanns atvinnuveganefndar, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, og þeirra sem vildu breytingar og veg strandveiða meiri, báru ekki árangur.“

Kristján Þór tók vissulega undir þetta og sagði að sér hafi gengið illa að fá frumvörp sín samþykkt á þingi. Hann nefndi að hann hafi tvisvar lagt fram frumvarp um að hlutdeildarsetja grásleppu. Í hvorugt skiptið hafi málið komist út úr nefnd og til efnislegrar umræðu í þingsal.

„Það fóru margir í skotgrafirnar og grófu sig mjög djúpt þar í stað þess að taka einhverja efnislega umræðu um stöðu málsins.“