miðvikudagur, 12. maí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikið af djúpkarfa en markaðir ráða aflabrögðum

10. apríl 2021 kl. 12:50

Mynd/Brim

Erfiðasta verkefnið er að forðst tegundir eins og ýsu sem sé alls staðar, að sögn skipstjórans á Vigra RE.

Frystitogarinn Vigri RE er kominn á miðin að nýju eftir að hafa komið með afla til Reykjavíkur um miðja síðustu viku. Heildaraflinn í veiðiferðinni var tæp 1.100 tonn af fiski upp úr sjó en hluta aflans var millilandað í Reykjavík um miðbik túrins.

Í viðtali á heimasíðu Brims segir Árn Gunnólfsson skipstjóri aflann aðallega ufsa og djúpkarfa.

„Við byrjuðum á Eldeyjarbankanum og þar á hrauninu gekk mjög vel að veiða ufsa. Síðan fórum við út í Skerjadjúpið. Þar var ágæt djúpkarfaveiði og svo kom hálfur annar sólarhringur með mjög góðri djúpkarfaveiði,” segir Árni en úr Skerjadjúpinu lá leiðin á Litlabanka, Pínulitlabanka og loks á Matthildi.

„Það var alls staðar veiði og okkur gekk sérlega vel að veiða djúpkarfann á Matthildi,” segir Árni en hann kveður þennan veiðistað vera suðvestur af Melsekk og Fjöllunum.

Árni segir í viðtalinu að erfiðasta verkefnið nú sé að forðst tegundir eins og ýsu sem sé alls staðar. Þá sé gríðarlegt magn af gullkarfa á ferðinni og þótt kvótastaðan þar sé mun rýmri en í ýsunni þá ráði markaðir því hvað vænlegt sé að veiða hverju sinni.

„Það er kominn sá tími ársins að alls kyns lokanir fara að líta dagsins ljós hér syðra en á móti kemur að veiðin á Vestfjarðamiðum ætti að fara að glæðast,” segir Árni.