miðvikudagur, 26. janúar 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mok af stórþorski hjá Björgvin EA

3. desember 2021 kl. 12:48

Björgvin EA að landa á Grundarfirði. Mynd/Samherji

Ásgeir Pálsson, skipstjóri á Björgvin EA, segir aflabrögð á Dohrn-banka einstaklega góð, en það var hann sem fyrstur lét reyna á veiðar þar. Þar hefur fjöldi skipa verið í moki en miðin liggja djúpt út af Vestfjörðum. Þar eru válynd veður og hafís.

Fjölmargir togarar hafa farið til veiða á Dohrn-banka, miða sem eru djúpt vestur af landinu. Ástæðan er sú að þar hefur verið mokveiði af stórþorski, svo góðri að menn eiga yfir það fá orð.

Í frétt á heimasíðu Samherja er þessari aflahrotu gerð góð skil og frá því sagt að togaraflotinn hefur ekki stundað veiðar á Dohrn-banka í langan tíma enda miðin helst þekkt fyrir rækjuveiði.

Þegar aflabrögð voru slök á hefðbundnum bolfiskmiðum í síðasta mánuði, fór togarann Björgvin EA á svæðið með fyrrgreindum árangri. Áður en langt um leið fjölgaði íslenskum skipum hratt á þessum slóðum í kjölfarið.

Það var Ásgeir Pálsson skipstjóri á Björgvin, sem fyrstur var til að láta á veiði á svæðinu reyna. Hann segir í frétt Samherja að íslenski flotinn veiði við miðlínuna milli Grænlands og Íslands, rúmlega eitt hundrað sjómílur vestur af Látrabjargi. Björgvin landaði fullfermi í Grundarfirði og er aflanum ekið til vinnslu á Akureyri og Dalvík.

Boltaþorskur

„Þetta var annar túrinn okkar. Sá fyrri gekk vel, við vorum tvo og hálfan sólarhring að fylla skipið og í þessum túr tók svipaðan tíma að fylla. Þetta er stór þorskur og greinilega vel haldinn, lifrin er stór. Meðalvigtin hjá okkur var 6,2 kíló og í nokkrum holum allt að sjö kílóum. Mest tókum við 18 tonn en reyndum að hafa á bilinu 10 til 12 tonn í holi til þess að afurðirnar verði sem bestar og verðmætastar. Það er ekki nóg að fiska sem mest, gæðin skipa mestu og þar með aflaverðmætið.“

„Já, þarna er allra veðra von, það getur verið hauga helvítis sjór í norðaustan áttinni. Öldurnar eru ansi krappar og stutt á milli þeirra enda er straumurinn þungur. Annars hefur veðrið verið ágætt á okkur í þessum tveimur túrum, fyrir utan fyrsta sólarhringinn en þarna er líka hafís sem getur verið varasamur,“ segir Ásgeir.

Ræða upprunann í talstöðinni

Fljótlega eftir að fréttist af góðum aflabrögðum, fjölgaði skipum hratt og flest voru þau fimmtán

„Menn hafa verið að velta þessu fyrir sér, hvort þetta er Grænlandsþorskur sem kemur úr grænlenskri lögsögu og hrygni síðan í Breiðafirði en það er sem sagt ekki vitað nákvæmlega á þessari stundu. Ég hef heyrt tilgátur í talstöðinni um þetta en sjálfsagt kemur hið sanna í ljós með tíð og tíma.“

Nóg að gera í landi

„Það er um fimmtán klukkustunda stím á Grundarfjörð og flutningabílarnir aka svo hráefninu norður í Eyjafjörð til vinnslu. Það hafa fleiri skip frá Samherja og ÚA verið á þessum slóðum og veitt vel, þannig að landvinnslan hefur úr nógu að moða þessa dagana, enda veitir ekkert af eftir tregt fiskerí á undanförnum vikum,“ segir Ásgeir Pálsson skipstjóri á Björgvin EA, í frétt Samherja.