sunnudagur, 24. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nautic hannar fjögur línuskip

Guðjón Guðmundsson
23. júlí 2021 kl. 13:00

Teikning af nýju línuskipi Norebo Group í hönnun Nautic/Nautic Rus.

Rússneski útgerðarrisinn Norebo Group hyggst láta smíða fjögur nútímaleg línuskip eftir hönnun íslenska skipahönnunarfyrirtækisins Nautic/Nautic Rus

Rússneski útgerðarrisinn Norebo Group hyggst láta smíða fjögur nútímaleg línuskip eftir hönnun íslenska skipahönnunarfyrirtækisins Nautic/Nautic Rus í kjölfar þess að fyrirtækið var eitt þeirra fyrirtækja sem hlutskarpast var í uppboðsleið rússneskra stjórnvalda.

Rússneskum fyrirtækjum hefur gefist kostur að bjóða í kvóta gegn því að fjárfesta í nýjum skipum eða landvinnslu. Smíðaverkefnunum er beint til innlendra aðila. Í annarri umferð kvótauppboðsins ákvað Norebo að smíða 10 togara í raðsmíðaverkefni sem byggir einnig á hönnun Nautic. Nýju línuskipunum verður ætla að sækja þorsk í vesturhluta Beringshafs og í Tjúktahafi sem er hafsvæði í Norður-Íshafi á milli Tjúktaskaga og Alaska, og lúðu og langhala í vesturhluta Beringshafs.

Samningar um smíði línuskipanna hafa þegar verið undirritaðir og fer smíðin fram í Severnaya skipasmíðastöðinni í Pétursborg eftir teikningum Nautic/Nautic Rus. Sergej Sennikov, fulltrúi Norebo, segir að um nútímaleg línuskip verði að ræða, 64 metra löng og 14 metra breið.

Smíði fyrsta línuskipsins á að hefjast í desember næstkomandi og á skipasmíðastöðin að afhenda eigendum það í maí 2024. Fjórða og síðasta línuskipið er með afhendingardag í maí 2024.

Fram kemur í fréttum erlendra miðla að Norebo hafi einnig lýst áhuga á því að láta hanna og smíða skip sem eru sérstaklega ætluð til ufsa- og síldarveiða.