laugardagur, 25. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Níutíu prósent nýting

3. ágúst 2021 kl. 10:00

Herjólfur siglir úr Eyjum. MYND/Óskar P. Friðriksson

Vegagerðin segir nýtingu Herjólfs á Landeyjahöfn síðasta vetur hafa verið svipaða og gert var ráð fyrir þegar höfnin var byggð.

„Nýi Herjólfur hefur bætt nýtingu sína á Landeyjahöfn töluvert með aukinni reynslu skipstjórnenda á skipinu,“ segir í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar.

„Þannig var nýting skipsins á Landeyjahöfn 70 prósent veturinn 2019 til 2020 en 80 prósent veturinn 2020-2021. Ef hálfir dagar eru einnig teknir með í jöfnuna er nýtingin komin rétt yfir 90 prósent.“

Þetta segir Vegagerðin vera svipaða nýtni og gert var ráð fyrir þegar höfnin var byggð.

Þá segir Vegagerðin að síðasta vetur hafi minna þurft að dýpka Landeyjahöfn en veturna á undan.

„Töluvert einfaldara er að dýpka höfnina núna eftir að nýi Herjólfur hóf siglingar. Herjólfur III ristir dýpra og því þurfti einnig að dýpka meira framan við höfnina, neðar en náttúrulegt dýpi sem varð til þess að fljótt fylltist upp í það sem dýpkað var.“

Tekið er fram að eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010, sama ár og Landeyjahöfn var opnuð, hafi haft mikil áhrif á aðstæður í höfninni.

„Við gosið færðist ströndin utar enda bættust við 100.000.000 m3 af efni við og náttúrulegt dýpi í kringum höfnina varð grynnra en áður og í meira ójafnvægi. Nú standa vonir til að sandflutningur á svæðinu sé kominn í meira jafnvægi.“