laugardagur, 4. desember 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nóg af þorski á Vestfjarðamiðum

19. október 2021 kl. 08:00

Mynd/Brim

Togarar Brims líklega á veiðum á Vestfjarðamiðum þangað til að fer að glæðast á heimamiðum.

„Það mjög vel. Við vorum með 600 kör af fiski en það er fullfermi, eða 180 til 190 tonn af fiski upp úr sjó. Veðrið var þokkalegt að mestu en þó gerði leiðindabrælu í einn dag,” segir Jóhannes Ellert Eiríksson, skipstjóri á ísfisktogaranum Viðey RE, í viðtali á heimasíðu Brims.

Viðey kom til hafnar í Reykjavík á mánudagskvöld.

„Við höfum aðallega verið í kantinum út af Patreksfirði og þaðan höfum við unnið okkur norður á Halamið. Við erum á höttunum eftir þorski á þessum árstíma og það er nóg af honum á Vestfjarðamiðum. Veðráttan er okkar versti óvinur og t.a.m. var vitlaust veður í tvo og hálfan sólarhring í túrnum á undan. Þá vorum við með rúmlega 400 kör af afla ef ég man rétt,” segir Jóhannes Ellert en hann og aðrir í áhöfninni eru vanir þessu. Runninn sé upp sá árstími að allra veðra sé von.

„Spárnar hafa batnað mjög mikið og það er hending ef þær ganga ekki eftir. Maður tekur því viku í einu en hefur allan vara á,” segir Jóhannes Ellert en hann kveður hina ísfisktogara Brims vera á svipuðu róli og þeir sjálfir. Vestfjarðamið séu vettvangurinn þar til að afli fari að glæðast á Suðvesturmiðum. Það verður væntanlega í febrúar næstkomandi.