þriðjudagur, 1. desember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn reyna þorskeldið á ný

Guðsteinn Bjarnason
31. október 2020 kl. 13:00

Fyrir hrun ríkti mikil bjartsýni í Noregi á því að þorskeldið gæti orðið blómleg atvinnugrein. Það brást og ný skal reyna á ný. Aðsend mynd

Áform um þorskeldi mæta tortryggni norskra strandveiðimanna.

Sjávarútvegsráðherra Noregs segir ólíklegt að þorskeldi muni standa undir gjaldtöku í bráð, öfugt við laxeldið sem nú eru innheimt há gjöld af.

Norsk fyrirtæki hyggjast fjárfesta í þorskeldi fyrir fleiri hundruð milljóna norskra króna. Þeirra á meðal er Norcod sem er að safna sér auknu hlutafé upp á 250 milljónir norskra króna, sem er jafnvirði um 3,7 milljarða íslenskra króna, til þess að efla þorskeldi fyrirtækisins.

Norcod er tveggja ára gamalt fyrirtæki sem stefnir á að stórefla framleiðsluna.

Norsku miðlarnir Fiskeribladet og Intrafish hafa fjallað nokkuð um þetta. Þorskeldi hefur áður verið reynt í Noregi með slæmum árangri, en nú stendur til að gera aðra atlögu.

Arctic Cod, eitt þessara fyrirtækja, segir aðstæður nú allt aðrar.

Starfsleyfin gjaldfrjáls

Aukinn áhuga á þorskeldi í Noregi má væntanlega rekja til þess að engin gjöld eru tekin af þorskeldi, öfugt við laxeldið sem nú þarf að greiða háar fjárhæðir í ríkissjóð.

Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsmálaráðherra Noregs, segir í viðtali við norska Fiskeribladet að hann muni varla beita sér fyrir því að leggja há gjöld á þorskeldið. Hann þyrfti þá að sitja ansi lengi í embætti því ekki megi reikna með því að þorskeldi verði arðbær grein fyrstu árin.

„Það má minna á að það tók langan tíma áður en laxeldið var komið í þá stöðu að það var orðið hagkvæmt,“ segir hann.

„Það er okkur í fersku minni að þorskeldið fór með hvelli á hausinn í fyrra skiptið sem veðjað var á það. Þorskeldi er nú að hefjast í annað sinn og enginn getur vitað með vissu hvernig það mun fara.“

Hann segir fjölda starfsleyfa í laxeldi vera takmarkaðan, og nú sé „mikill greiðsluvilji“ í laxeldinu. Þorskeldisfyrirtæki muni hins vegar fá starfsleyfi endurgjaldslaust.

Norska Fiskeribladet ræðir við strandveiðimenn sem eru tortryggnir á þessi áform. Þeir vilji ekki að þorskeldi verði stundað í opnum sjókvíum, minnugir þess að illa fór í fyrra sinnið og þá hafi þorskur iðulega sloppið úr kvíunum.

Fyrri tilraunir með þorskeldi í Noregi fóru raunar út um þúfur í hruninu 2008, að því er Fiskeribladet greinir frá. Framleiðslukostnaður hækkaði mikið og árið eftir voru veiðiheimildir í þorski auknar verulega, þannig að reksturinn varð ekki hagkvæmur.