þriðjudagur, 17. maí 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nú má fara að búast við stuði

Guðjón Guðmundsson
2. desember 2021 kl. 11:00

Aðalsteinn Jónsson SU 11 í heimahöfn á Eskifirði. Mynd/Þorgeir Baldursson

Sjávarútvegsráðherra heimilar loðnuveiðar í flotvörpu.

 

Aðalsteinn Jónsson SU, uppsjávarskip Eskju á Eskifirði, var að skríða inn til Húsavíkur í gærmorgun til að sækja eftirlitsmenn frá Fiskistofu áður en haldið yrði á austanverðan Kolbeinshrygg til að kasta á loðnu.

Það var gott hljóð í Ómari Sigurðssyni skipstjóra enda fagna loðnusjómenn fyrsta embættisverki nýs sjávarútvegsráðherra, sem í fyrradag gaf út reglugerðarbreytingu sem leyfir veiðar með trolli á svæðinu frá austanverðum Kolbeinseyjarhrygg að Langanesi.

  • Ómar Sigurðsson, skipstjóri. Mynd/Þorgeir Baldursson

Fréttamiðillinn Austurfrétt skýrði fyrstur frá því að það hefði verið eitt fyrsta embættisverk Svandísar Svavarsdóttur, nýs sjávarútvegsráðherra, að undirrita breytingar á reglugerð um loðnuveiðar sem heimilar veiðar með flotvörpu á svæði úti fyrir Norðurlandi. Þá höfðu útgerðir uppsjávarskipa beðið í tíu daga eftir slíkri heimild. Heimildin gildir til áramóta.

Aðalsteinn Jónsson var í Skjálfandaflóa þegar náðist í Ómar skipstjóra. Hann sagði fínasta veður úti fyrir Norðurlandi svo ekki ætti það að hamla veiðum. Annars var það að frétta af öðrum uppsjávarskipum að þau höfðu reynt fyrir sér með loðnunót án mikils árangurs enda stendur loðnan djúpt og veiðarfærin ekki hentug til slíkra veiða. Ómar sagði að búast mætti við „all miklu stuði” jafnvel strax seinnipartinn og að vonandi séu loðnuveiðar að hefjast fyrir alvöru.

Kolmunni austan Færeyja

Aðalsteinn Jónsson landaði á Eskifirði 2.100 tonnum af kolmunna áður en haldið var norður á loðnuslóðir. Kolmunninn fékkst austur af Færeyjum, rétt vestan norsku lögsögunnar. Ómar sagði töluvert hafa verið af kolmunna þarna en hann var heldur smár. Tekin voru fimm hol og voru að jafnaði 200-300 tonn í holi. Jón Kjartansson SU er líka á kolmunnaveiðum á svipuðum slóðum og sennilega í sínum síðasta kolmunnatúr að sinni. Hélt Ómar að enn væru óveidd um 3.000 tonn af kvóta hans. Aðalsteinn Jónsson var búinn að veiða nálægt um 15.000 tonnum af kolmunna á þessu ári samtals.

Eftir löndun var tekið loðnutroll og nót um borð og haldið sama dag norður. „Á þessum tíma er loðna austan megin við Kolbeinseyjarhrygginn. Þar hefur ekki mátt nota troll í línu sem er dregin beint norður af Langanesi. Loðnan liggur djúpt og er dreifð á þessum tíma og nótin nær einfaldlega ekki nægilega langt niður,” segir Ómar.

  • Flottrollshólfið, hér litað gulu, eins og það leit út fyrir reglugerðarbreytingu. Nú hefur línan verið færð þannig að veiðar eru leyfilegar á svæðinu frá austanverðum Kolbeinseyjarhrygg að Langanesi.