fimmtudagur, 15. apríl 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óbreytt staða án sterkra árganga

Svavar Hávarðsson
6. mars 2021 kl. 09:00

Mynd/Svanhildur Egilsdóttir/Hafrannsóknastofnun

Rannsóknir Hafrannsóknastofnunar á humarstofninum við Ísland sýna að langur tími gæti liðið þangað til stofninn hjarnar við en nýliðun hefur verið bágborin í rúman áratug.

Rannsóknir Hafrannsóknastofnunar á humarstofninum við Ísland sýna að nýliðun stofnsins hefur verið bágborin í rúmlega tíu ár. Ekki er vitað um stöðu árganga frá árunum 2016-2017 þar sem þeir eru ekki komnir inn í veiðina. Miðað við stöðuna nú er ljóst að það mun taka stofninn að lágmarki fimm til tíu ár að rétta úr sér, að því gefnu að sterkir árgangar nái að vaxa úr grasi sem engar vísbendingar eru um.

Í nýútgefinni veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er mælt með að afli ársins 2021 verði ekki meiri en 143 tonn svo fylgjast megi með stærðarsamsetningu og dreifingu stofnsins. Jafnframt leggur stofnunin til að allar humarveiðar verði bannaðar í Jökuldjúpi og Lónsdjúpi til verndar uppvaxandi humri. Til að minnka álag á humarslóð ráðleggur Hafrannsóknastofnun að veiðar með fiskibotnvörpu verði áfram bannaðar á afmörkuðum svæðum í Breiðamerkurdjúpi, Hornafjarðardjúpi og Lónsdjúpi.

Fyrirliggjandi gögn benda til að nýliðun sé í sögulegu lágmarki og að árgangar frá 2005 séu mjög litlir. Verði ekki breyting þar á má búast við áframhaldandi minnkun stofnsins. Stofninn er talinn undir varúðarmörkum og ekki sjáanlegt að það breytist á næstu árum.

Ráðgjöfin fyrir komandi vertíð er því í sama farvegi og verið hefur undanfarin ár. Veiðar eru í mýflugumynd miðað við það sem áður var og svo virðist sem það sé ástand sem þeir sem nýta stofninn verði að sætta sig við alllengi.

En hvað er rökrétt að álykta að það taki langan tíma fyrir stofninn að rétta úr sér, svo að menn geti sagt að hann sé í sæmilegu eða góðu ástandi?

„Það tekur að öllum líkindum að lágmarki 5 – 10 ár. En þá þurfum við auðvitað að sjá sterka árganga koma inn,“ segir Jónas Páll Jónasson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.

Spurður um rannsóknaveiðarnar og hvort þær séu einfaldlega réttlætanlegar miðað við stöðu stofnsins, segir Jónas að þær séu takmarkaðar og mjög hófstilltar.

„Við höfum sett viðmið um að óhætt sé að stunda þær að 300 milljón holna lágmarki, eða helminginn af upphaflegu humarholumælingunni árið 2016. Við tengjum líka ráðlagt magn við vísitöluna, og ef hún lækkar, þá lækkar ráðgjöfin þangað til að viðmiðinu er náð og við leggjum að ekkert sé veitt. En vonandi þarf ekki að koma til þess.“

Vantar skýr svör

Þéttleiki humarholna við Ísland mælist nú með því lægsta sem þekkist meðal þeirra humarstofna sem Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) veitir ráðgjöf um, að því er kemur fram í síðustu ráðgjöf Hafró. Það segir sitthvað um stofninn og aðstæður hans til uppvaxtar á þessum tímapunkti.

„Við hefjum holumyndatöku árið 2016. Á þeim tímapunkti höfðu aðrar vísitölur og mælingar sem við höfðum stuðst við lækkað nokkuð jafnt og þétt frá árinu 2010, frá reyndar góðu ástandi sem var þá á stofninum.  Umhverfisaðstæður fyrir humarinn eru fínar og útbreiðsla hans hefur aukist á því hlýindaskeiði sem við erum á. Hann veiðist í nokkru mæli til að mynda í Kolluál, norður af nyrstu veiðislóðinni í Jökuldýpi við Snæfellsnes, bæði sem meðafli og einnig hefur gengið vel að veiða hann þar í gildrur. Þar voru reyndar humarveiðar stundaðar í smáum stíl á árunum í kringum 1960. Við höfum hinsvegar ekki skýr svör varðandi nýliðunarbrestinn, en við höfum einnig séð hann í öðrum tegundum sem eru bundnar við suðurströndina,“ segir Jónas og bætir við að hann sé að öllum líkindum tengd skilyrðum fyrir lirfur þessara tegunda.

„Það ástand í hafinu sem við höfum séð frá árinu 2005 hefur þó aðeins gengið til baka síðustu ár. Þess ber líka að geta að hér við land bera hrygnurnar egg að jafnaði annað hvert ár og sókn í okkar stofn hefur verið stýrt með hliðsjón af minni framleiðslu. Varðandi þéttleika hér og samanburð við önnur svæði þá eru að jafnaði fleiri en 0.1 humrar á fermetra á djúpslóð við Írland, þar er humarinn nokkuð stór og þéttleiki lítill, en humarinn þar er heldur minni en sést hefur undanfarin ár við Ísland. Í fyrstu mæling við Ísland árið 2016 er þéttleikinn aðeins undir 0.1 og stendur núna í 0.065 holum á fermetra.“

Bundið við Ísland

Að sögn Jónasar eru leturhumarstofnar annars staðar, t.d. við Írland  ekki að gefa eftir eins og hér.

„Við höfum ekki séð neitt í líkingu við það og við sjáum hérna, varðandi nýliðunina. Það eru sveiflur í þeim stofnum og misjafnt ástand á þeim. Þar kemur humarinn fyrr inn í veiðar og hann er veiddur mun smærri,“ segir Jónas.

Nýjar aðferðir við mat á humarstofninum eða talningar á holum humarsins hafa ekki sýnt það að fyrri mælingaraðferðir hafi ofmetið stofninn.

„Mælingar með eldri aðferð sýndu nokkuð stöðugt fall í stofninum fram til ársins 2018 þegar við hverfum frá þeim. Það er í raun meiri stöðuleiki sem sést í humarholutalningunni. Eldri aðferðarfræði tók aðeins til karlkyns humra, en hlutfall kvendýra í veiði er mjög lágt hér og yfir leitt lægra en 10% .  Humarholutalningin tekur á báðum kynjum þar sem holukerfi hvers dýrs er talið.“

Ný vitneskja

Stofnmatið í ár er byggt á stofnmælingu þar sem humarholur eru taldar með neðansjávarmyndavélum og er það í fimmta sinn sem slík stofnmæling er framkvæmd. Stofnmælingin er talin ná utan um öll þau svæði þar sem humar finnst í veiðanlegu magni. Eldri aðferðafræði sem beitt var til að meta stærð humarstofnsins er ekki viðurkennd af Alþjóðahafrannsóknarráðinu vegna óvissu um aldurssamsetningu.

Oft fæst ný vitneskja um vistfræði og atferli stofna í hafinu við bætta aðferðafræði við stofnmat. Jónas nefnir að á þessum tímapunkti eru sérfræðingar stofnunarinnar að vinna úr mjög áhugaverðum gögnum sem fengust úr merkingu á humri í Jökuldjúpi í haust.

„Þar sjáum við hversu oft og hversu lengi humrarnir yfirgefa holurnar og eru veiðanlegir og einnig hvaða umhverfisþættir stýra atferli þeirra. Hingað til hefur hegðun leturhumarsins ekki verið rannsökuð með þessum hætti og vitneskja einkum fengist með upplýsingum fengnar beint frá veiðum. Við skilum áfangaskýrslu um það í lok mars og getum þá kynnt það betur í framhaldinu,“ segir Jónas.

Veiddur í rúm 70 ár

Veiðar á leturhumri við Ísland hófust upp úr 1950. Fyrstu tvo áratugina voru veiðarnar stundaðar af Belgum, Frökkum og Íslendingum. Íslendingar hafa staðið einir að veiðunum frá 1974. Í upphafi voru humarveiðar einkum stundaðar á vorin og sumrin og tóku allt að 200 bátar þátt í veiðunum á sjöunda og áttunda áratugnum. Á undanförnum árum hefur vertíðin lengst og hefst veiðitímabilið nú 15. mars og stendur út október með einstaka framlengingum til nóvember og desember. Fjölda báta sem stunda veiðarnar hefur fækkað jafnt og þétt, allt niður í sjö báta síðastliðin ár. Humar hefur nær eingöngu verið veiddur í humarvörpu við Ísland, en mis umfangsmiklar tilraunir með gildrur hafa þó farið fram á undanförnum áratugum.

Humarmiðin við Ísland liggja við norðurmörk útbreiðslu tegundarinnar í Norður-Atlantshafi. Sýnt hefur verið fram á æxlunarferill kvendýra við Ísland tekur að jafnaði tvö ár, samanborðið við árlegan ferill við Skotland, Írland, Frakkland og Portúgal. Það veldur því að vöxtur þeirra eftir kynþroska er hægari og framleiðni minni hér við land. Það hefur áhrif á afrakstursgetu stofnsins samanborið við suðlægari stofna og gefur tilefni til varkárari nýtingar.

Alls var landað 194 tonnum af humri á síðastliðnu ári, minnkun um 63 tonn frá árinu 2019. Aflinn hefur farið stöðugt minnkandi frá árinu 2010 þegar hann var 2.540 tonn. Aflinn náði mest 6.000 tonnum árið 1963 og í kjölfarið fylgdu nokkur ár með mikilli veiði.