föstudagur, 22. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ofurskyndibiti úr verðlaunapoka

Guðjón Guðmundsson
28. desember 2020 kl. 13:00

Pakkningarnar hlutu London Design verðlaunin. Aðsend mynd

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Bifröst Foods hreppti í síðustu viku gullverðlaun á verðlaunahátíðinni London Design Awards. Verðlaunin fékk fyrirtækið fyrir umbúðahönnun á „fish & chips“ heilsusnakki sem nýlega kom í verslanir á Íslandi.

Rúnar Ómarsson frumkvöðull og eigandi Bifrastar Foods kveðst lengi hafa ætlað búa til neytendavöru úr íslenskum sjávarafurðum. Síðustu ár hefur hann unnið sem leiðsögumaður í fjallahjólaferðum hluta úr ári. Í þeirri íþrótt læra menn fljótt hvað best er að hafa í nestispakkanum.

„Ég komst að því eins og allir sem stunda útivist, að harðfiskurinn er frábær í bakpokann. Harðfiskur er 84% prótein og það fer ekkert fyrir honum. Líkaminn kann manni líka bestu þakkir þegar hann er nærður á þessari ofurfæðu eftir mikil átök,“ segir Rúnar.

Þegar menn erfiða þurfa þeir líka orku; kolvetni og fitu. Þá kemur til kasta kartöfluflagna.

Rúnar segir að „fish & chips“, eins og Bretar vilja þennan djúpsteikta þjóðarrétt sinn, sé líklega ekki mjög holl fæða. Hann ákvað að gera sína útfærslu – ofurfæðu í 100 gramma poka sem fer langt með að uppfylla daglega próteinþörf fullorðins einstaklings.

Tekur í sig bragð frá kartöflunum

„Harðfiskur er dýr vara. Það þarf 160 gramma fiskflak til þess að búa til þau 30 grömm af harðfiski sem eru í hverjum poka frá okkur. Það er því kannski ekki heiglum hent að markaðssetja harðfiskinn einan og sér. Með því að hafa 70 grömm af kartöfluflögum með í pokanum gefst kostur á því að bjóða upp á mismunandi bragð með mismunandi kryddum. Fiskurinn tekur í sig örlítið bragð af kartöflunum og úr verður ný vara.“

Fiskinn fær Rúnar frá íslenskum harðfiskframleiðanda og kartöflurnar eru framleiddar hjá kartöfluframleiðandanum Náttskugga þar sem vörunni er líka pakkað. Rúnar fékk verðlaun fyrir þessa hugmynd á sjávarútvegsráðstefnunni 2017 og hefur unnið að þróun og markaðssetningu síðan. Með þeim tækjakosti sem fyrirtækið hefur komið sér upp er unnt að framleiða nokkur þúsund poka af „fish & chips“ á viku. Framleiðslugetan verður svo aukin eftir því sem salan eykst.

Á erlenda markaði

Umbúðirnar fyrir „fish & chips“ sem hlutu gullið á London Design Awards er bein tilvísun í dagblaðapappírinn sem er oft settur utan um „fish & chips“ sem Bretar neyta. Rúnar segir stefnt á erlenda markaði en á síður von á góðum viðtökum í Bretlandi, þar sem hefðin er hvað ríkust fyrir hefðbundnum „fish & chips“. Umbúðirnar eru hannaðar af Birgi Ómarssyni á auglýsingastofunni Kaktus og byggir hönnunin á hugmynd Rúnars.

Varan er nú í boði í tveimur bragðtegundum, með salti og pipar og salti, pipar og ediki en von er á fleiri bragðtegundum á fyrri hluta næsta árs.

Varan er nú víða fáanleg og stefnt er að því að selja hana á erlendum mörkuðum þegar á fyrri hluta næsta árs. Viðtökurnar hafa verið framar vonum að sögn Rúnars sem bjóst við dræmari undirtektum innanlands þar sem rík hefð er fyrir neyslu hefðbundins harðfisks.  Prufusendingar eru farnar erlendis á vegum fjögurra stórra dreifingaraðila sem hafa tengingar við íslenska framleiðendur. Þeir hafa í hyggju að markaðssetja vöruna í Bandaríkjunum, Suður-Ameríku, Eystrasalts-löndunum og Skandinavíu. Einnig sé talinn frjór jarðvegur fyrir vöru af þessu tagi í mörgum Asíulöndum. Rúnar segir fyrstu viðbrögð altént lofa mjög góðu.