fimmtudagur, 25. febrúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ómissandi tækni fyrir skipstjórann

Guðjón Guðmundsson
27. desember 2020 kl. 15:00

Veiðarfæranemar gegna ýmsum hlutverkum og eru skipstjórnarmönnum ómissandi núorðið. Mynd/Birgir Þór Sverrisson/Marport

Marport er skýrt dæmi um hvernig þjónustu- og tæknifyrirtæki dafna í kringum sjávarútveginn á Íslandi. Marport er skilgetið afkvæmi íslensks sjávarútvegs og hefur starfað í nánum samskiptum við útgerðarfyrirtæki landsins.

Veiðarfæranemar og kerfi frá Marport eru í velflestum nýjum skipum í fiskiskipaflota Íslendinga sem bæst hafa í flotann síðustu tíu ár. Mikilvægasti markaður fyrirtækisins er Ísland, ekki vegna stærðar markaðarins heldur vegna þess að landið gegnir hlutverki nokkurs konar sýningarglugga fyrir aðra markaði. Náið og gott samstarf með útgerðum hefur gert Marport kleift að prófa tækninýjungar og þróa nýjar afurðir. Ný kynslóð nema frá fyrirtækinu er á næsta leiti, sem mun bjóða upp á gagnvirk samskipti úr brú í veiðarfæri.

Hliðarskref

Óskar Axelsson, framkvæmdastjóri Marport á Íslandi, stofnaði fyrirtækið í samstarfi við tvo aðra aðila árið 1996. Óskar hafði víða leitað hófanna að samstarfsmönnum um framleiðslu á nýrri gerð nema án mikils árangurs. Það var því ekkert annað í stöðunni en að stofna nýtt fyrirtæki og fékk það nafnið Marport. Snemma komu erlendir fjárfestar að fyrirtækinu sem höfðu meðal annars hugmyndir um þróun nema til hernaðarlegra nota. Óskar segir að þetta hafi verið hálfgert gönuhlaup því fyrirtækinu hafi alltaf gengið vel í framleiðslu á nemum fyrir sjávarútveginn og hefði átt að einbeita sér að því. Þetta hliðarskref dró því talsverðan mátt úr Marport. Einnig stefndi norskur samkeppnisaðli fyrirtækinu fyrir rétt vegna meintra brota á einkaleyfum þess fyrrnefnda. Ekki tókst þó betur til en svo, eftir áralangan málarekstur, að norska fyrirtækið gjörtapaði málinu. Einnig voru bæði einkaleyfin, sem norska fyrirtækið byggði mál sitt á, dæmd ógild vegna skorts á nýnæmi. Einnig þurfti umrætt fyrirtæki að greiða allan málskostnað Marport. Þrátt fyrir hagstæða niðurstöðu fyrir dómi var málareksturinn afar kostnaðarsamur fyrir Marport og truflaði alla starfsemi fyrirtækisins. Samstarf við bandaríska fyrirtækið Airmar hleypti aftur þrótti í starfsemina. Árið 2013 keypti Airmar svo Marport að fullu. Airmar hefur verið leiðandi í þróun og framleiðslu á botnstykkjum fyrir sjávarútveg og sinnir framleiðslu fyrir helstu fyrirtæki á þeim markaði sem þau selja svo undir eigin nafni. Þá framleiðir Airmar einnig búnað fyrir iðnað og landbúnað. Hjá fyrirtækinu starfa um 300 manns.

Stærstir á heimsvísu

„Nú er staðan sú að Marport er langstærsta fyrirtækið í veiðarfærastýringum á heimsvísu. Eftir sameininguna hefur verið gríðarlegur vöxtur á hverju ári. Núna erum við með sex eigin skrifstofur sem sjá um sölu og þjónustu á eftirfarandi stöðum: Bandaríkjunum, Íslandi, Noregi, Frakklandi, Spáni og á þessu ári opnuðum við skrifstofu í Suður-Afríku. Áformað er að bæta við að minnsta kosti tveimur skrifstofum til viðbótar og mun það verða tilkynnt um mitt næsta ár. Eins og menn þekkja hefur orðið mikil samþjöppun meðal sjávarútvegsfyrirtækja og það hefur leitt af sér sambærilega samþjöppun í þjónustufyrirtækjum. Þess vegna höfum við opnað þessi sex útibú og hjá þeim starfa 36 manns,“ segir Óskar. Auk þess starfa 26 manns í tækni- og þróunardeild Marport í Frakklandi. Framleiðsla og samsetning fer fram í Frakklandi og New Hampshire þar sem höfuðstöðvar Airmar eru.

Komið í veg fyrir skemmdir

Veiðarfæranemarnir frá Marport geta gegnt ýmsum hlutverkum. Í sinni einföldustu mynd er um að ræða aflanema sem segir til um hve mikill fiskur er kominn í pokann. Söluhæsta varan núna er ný útgáfa af aflanema sem sýnir fyllinguna í pokanum með dýptarmælismynd. Hann sýnir líka ef aðskotahlutir koma í pokann, til dæmis grjót, og þegar hætta er á að pokinn fari niður á botn eða hvolfist á erfiðri togslóð. Neminn gerir mönnum kleift að bregðast skjótt við slíkum aðstæðum og hífa strax. Oft hefur með þeim hætti verið hægt að koma í veg fyrir skemmdir á veiðarfærum sem geta haft í för með sér kostnað sem nemur margföldu verði nemans. Einnig hefur neminn reynst vel við rækjuveiðar og þar sem sem fiskiskilja er notuð, þar sem verulega dregur úr straumflæði fyrir aftan skilju og pokinn þenst ekki út með hefðbundnum hætti.

Marport hefur nýlega selt mjög stór nemakerfi í ný þriggja trolla skip bæði á Grænlandi og í Noregi – kerfi sem eru með allt upp í 50 nema. En þetta er ekki stór markaður. Óskar segir að þetta sé kallað „Formúla 1“-markaðurinn í fiskveiðum og til hans teljast varla nema rétt rúmlega tvö þúsund skip á heimsvísu. Nú fjölgi hratt skipum í þessum flokki í Rússlandi þar sem mikil endurnýjun eigi sér stað í nýsmíðum og endurbyggingu á eldri skipum. Rússlandsmarkaður skiptir Marport miklu og hefur Marport einbeitt sér að endurnýjun í eldri skipum frekar en að berjast í nýsmíðum þar sem tíu sverð eru á lofti í augnablikinu.

Tvíátta samskipti

Óskar segir heimamarkað mikilvægastan fyrir Marport. Ekki vegna stærðar markaðarins heldur vegna þess að hann nýtist við prófanir á nýrri tækni og búnaði.

„Við höfum notið mikillar velvildar hjá útgerðarmönnum. Það er ekki einfalt að prófa hluti um borð í fiskiskipi sem er í fullri vinnu og það kallar á ákveðnar fórnir af hálfu eigandans og áhafnarinnar. Við höfum átt gríðarlega gott samstarf við útgerðina og það nær til beggja átta.“

Marport hefur farið þá leið að hafa sama kjarnabúnað í öllum sínum nemum. Þetta þýðir að sami vélbúnaður er í þeim öllum og einungis er skipt um hugbúnað eftir mismunandi notkun þeirra. Kosturinn við þetta fyrir þjónustuna er að einungis er um einn varahlut að ræða.

„Nú erum við að kynna nýja kynslóð innri búnaðar sem hefur mun meiri reiknigetu og tvöfalt meiri rafhlöðuendingu. Einnig bjóða þeir nemar upp á tvíátta samskipti. Nú eru nemarnir þannig gerðir að þeir senda aðeins frá nema og upp í skip en nú opnast sá möguleiki að hafa samskipti við nemann frá skipi, breyta stillingum og mæla fjarlægðir frá skipi í nemann með nákvæmni upp á nokkra sentímetra, sem styður einnig við vindukerfið. Einnig skapast möguleikar á samskiptum við stýrða trollhlera eða aðrar þær aðgerðir sem að notum koma.“

Marport hefur uppi áform um að útvíkka markaðinn fyrir nema og sækja inn á fiskveiðiþjóðir sem eru styttra á veg komnar í tækniþróun, eins og til dæmis Kína. Það myndi kalla á annað og einfaldara viðmót búnaðarins. Þennan markað kallar Óskar „Formúlu 2“. Hann segir að áður en herjað verði á þann markað verði að einfalda tæknina og viðmótið.

Gagnasóun

„Það er hægt að missa sig í alls kyns tæknitali en byltingin felst í því að tjón á veiðarfærum, jafnt á hlerum sem netum, er hverfandi miðað við það sem var áður. Nemarnir veita miklar upplýsingar um það hvort veiðarfærið sé fúnkerandi eða ekki. Ef ekki, þá er það einfaldlega dregið inn áður en skaði hlýst af. Áður fyrr voru menn að draga veiðarfærin dögunum saman, fylla þau af grjóti og eyðileggja netin.“

Óskar segir það sæta furðu hve lítinn áhuga þeir sem sinna hafrannsóknum sýni þessari tækni. Fleiri hundruð skipa séu stöðugt að safna gögnum með þessum nemum í Norður-Atlantshafinu og þessum gögnum sé bara hent. Að öllu jöfnu sé gögnunum hent eftir 60 daga, þ.e. hnituðum gögnum sem lúti jafnt að yfirborðs- og botnhita, seltu, straumum og fleiru. Færeyski fiskiskipaflotinn hafi deilt upplýsingum sín á milli frá nemunum, eins og yfirborðshita við makrílveiðar. Þannig sjái þeir hvernig hitaskilin liggi og geti vaktað hvenær skilyrði myndist fyrir makrílveiðar.

Veiðarfæranemar frá Marport eru í hafrannsóknaskipum víða um heim og til stendur hjá fyrirtækinu að setja á markað sérstaka vörulínu fyrir hafrannsóknir.