sunnudagur, 7. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óverulegt magn finnst í sjávarfangi

Guðsteinn Bjarnason
6. febrúar 2021 kl. 09:00

Allar helstu nytjategundir sjávarfangs eru vaktaðar. Mynd/Þorgeir Baldursson

Síðan 2003 hefur staðið yfir kerfisbundin vöktun á óæskilegum efnum í ætum hluta sjávarfangs. Vegna fjárskorts lá vöktunin þó niðri um hríð og ekki hefur verið hægt að leita eftir öllum efnum.

Íslenskar sjávarafurðir innihalda lítið af óæskilegum efnum á borð við þrávirk lífræn efni og þungmálma. Matís greinir frá þessu og hefur sent fá sér skýrslu um nýjustu niðurstöður úr kerfisbundinni vöktun slíkra efna í sjávarafurðum til manneldis.

Öll sýni sem tekin voru árið 2020 voru „vel undir vel undir hámarksgildum ESB fyrir þrávirk lífræn efni og þungmálma. Þá reyndist styrkur svokallaðra ICES6-PCB efna vera lágur í ætum hluta sjávarfangs,“ segir í tilkynningu. „Sömuleiðis sýndu niðurstöðurnar að styrkur þungmálma, t.d. kadmíum (Cd), blý (Pb) og kvikasilfur (Hg) í íslenskum sjávarafurðum var alltaf undir hámarksgildum ESB.“

Þessar niðurstöður eru almennt í samræmi við fyrri niðurstöður, en kerfisbundin vöktun hófst árið 2003 og til ársins 2012 sá Matís ohf. um að safna gögnum og útgáfu á skýrslum.

Öryggi og heilnæmi

Markmiðið með þessari vöktun hefur verið að sýna fram á stöðu íslenskra sjávarafurða með tilliti til öryggis og heilnæmis.

Matís segir byggðan hafa verið upp þekkingargrunn um magn óæskilegra efna í efnahagslega mikilvægum tegundum og sjávarafurðum. Þetta sé skilgreint sem langtímaverkefni þar sem útvíkkun og endurskoðun er stöðugt nauðsynleg.

Vegna skorts á fjármagni hafi þó verið gert hlé „á þessari mikilvægu gagnasöfnun sem og útgáfu niðurstaðna á tímabilinu 2013-2016,“ segir í skýrslunni.

Aftur var hafist handa í mars 2017, „en vegna fjárskorts nær það nú eingöngu yfir vöktun á óæskilegum efnum í ætum hluta sjávarfangs úr auðlindinni sem ætlað er til manneldis, en ekki fiskimjöl og lýsi fyrir fóður. Af sömu ástæðu eru ekki lengur gerðar efnagreiningar á PAH, PBDE og PFC efnum.“

Nytjategundir vaktaðar

Á vef Matís kemur fram að allar helstu nytjategundir sjávarfangs eru vaktaðar. Tekin eru sýni af bæði afurðum til manneldis og einnig afurðum til lýsis- og mjöliðnaðar. Fjöldi þeirra óæskilegu efna sem rannsökuð er á bilinu 60-90.

„Óæskileg efni eru mýmörg í umhverfinu og sum þeirra geta haft neikvæð áhrif á heilsu manna,“ segir Matís. Áhrif þessara efna eru sögð vera í beinu sambandi við styrk í umhverfi og matvælum, en styrkur þeirra sé „háður næringarlegu ástandi uppsjávar skistofnanna sem lýsið og mjölið er unnið úr og nær hámarki á hrygningartíma. Á þeim árstíma hættir magni díoxína og díoxínlíkra PCB efna, auk einstakra varnarefna, til þess að fara yfir leyfileg mörk Evrópusambandsins.“

Upphaflega var það sjávarútvegsráðuneytið sem hafði frumkvæði að þessari vöktun, en gögnin verða nýtt við gerð áhættumats á matvælum til að tryggja hagsmuni neytenda og lýðheilsu.