mánudagur, 2. ágúst 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Pokinn loðinn af kynþroska loðnu

Svavar Hávarðsson
16. júlí 2021 kl. 17:00

Loðnan veiddist á togstöðvum 301, 302 og 307. Mynd/Hafrannsóknastofnun

Makrílleiðangur Hafrannsóknastofnunar.

Stór og kynþroska loðna veiddist sitt hvoru megin við landhelgislínu Íslands og Grænlands í makrílleiðangri hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar. Þetta er óvænt á þessum árstíma eða á fyrstu dögum júlímánaðar. Flest ár sést eitthvað af lítilli og ókynþroska loðnu í leiðangrinum en ekki stór og kynþroska fiskur.

Frá þessu segir á bloggsíðu leiðangursins en loðnan var frá átta til 19 sentímetrar að lengd. Loðnan var misstór eftir togstöðvum en hlutfall kynþroska loðnu var frá 47% til 100% milli þriggja togstöðva.

Fyrir kynþroska loðnu voru kynkirtlar, bæði hrygna og hænga, á einu af fyrri stigum kynþroskans og því ekki loðna sem hrygnir bráðlega.

„Einnig er áhugavert að hlutfall hænga, af kynþroska fiski, var frá 19% til 57%. Loðnan var almennt í góðum holdum og voru margir fiskar með góða magafylli. Það eina sem ekki kemur á óvart var hitastigið á togdýpinu sem var frá 1.2 °C til 2.1 °C,“ er skrifað.

Loðnuaflinn var frá 23 til 240 kíló á togstöðvunum þremur sem gáfu loðnu. Flottrollið, sem notað er í leiðangrinum, er sérstaklega hönnuð til að veiða makríl og er möskvastærð í poka 40 millimetrar.

„Það var mikið ánetjað af loðnu á þessum þremur stöðvum. Það má setja að pokinn hafi verði loðinn af loðnu. Það sást eitthvað af endurvarpi á dýptarmælinum sem gæti verið loðna en það var lítið.“

12 ár í röð

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson lagði úr höfn 5. júlí til þátttöku í þessum árlega fjölþjóðlega leiðangri, svokölluðum uppsjávarvistkerfisleiðangri í Norðurhöfum að sumarlagi (IESSNS).

Þetta er tólfta árið í röð sem Hafrannsóknastofnun tekur þátt í leiðangrinum ásamt skipum frá Noregi, Færeyjum og Danmörku. Í ár tekur ekkert skip frá Grænlandi þátt og leiðangurssvæðið því minna en síðustu ár. Minnkunin nær yfir hafsvæði innan vesturhluta grænlensku landhelginnar og Íslandsdjúps.

Eitt af megin markmiðum verkefnisins er að meta magn og útbreiðslu makríls, kolmunna og norsk-íslenskrar síldar í norðaustur Atlantshafi að sumarlagi. Í leiðangrinum verður einnig aflað gagna sem nýtast við fjölbreyttar rannsóknir á ýmsum þáttum vistkerfisins frá frumframleiðni sjávar til útbreiðslu hvala. Gögnum verður safnað fyrir 20 rannsóknarverkefni.

Beygt af

Það er óhætt að segja að vetrarlegt hafi verið í upphafi leiðangursins. Á fyrstu stöðinni sást hafís og yfirborðshitastig sjávar var undir núll stigum. Þurfti að beygja af leiðarlínu skipsins vegna þess hversu þéttur ísinn var og var ísröndinni í staðinn fylgt í norðaustur.

Leiðangurinn stendur í 23 daga og verða sigldar tæplega 4.100 sjómílur eða um 7.500 kílómetrar. Um borð eru sex vísindamenn og 17 manna áhöfn.