þriðjudagur, 17. maí 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vilja lögsetja 48 veiðidaga

Guðsteinn Bjarnason
28. apríl 2022 kl. 10:00

Jenny HU 40 frá Skagaströnd að koma úr róðri. Mynd/Þorgeir Baldursson

Strandveiðar hefjast í byrjun næstu viku. Arthur Bogason býst við að fleiri hefji veiðar en í fyrra.

„Þetta er skref í rétta átt en það er alltaf spurning hvort nóg sé að gert,“ segir Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, um ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að heimila strandveiðimönnum að veiða 10.000 tonn af þorski í sumar. Arthur fagnar þessari ákvörðun ráðherra en segir óvissu enn vera í loftinu.

„Við höfum reynslu bæði af því að þessi skammtur hefur ekki klárast og svo  klárast vel fyrir tímann. Þetta er talsvert minna heldur en í fyrra, en í fyrra var líka bætt við á lokasprettinum. Við erum því ekki úrkula vonar um að eitthvað slíkt gerist ef veiðin þróast á svipaðan veg, en þetta er bara eitthvað sem tíminn einn getur leitt í ljós.“

Auk þess séu smábátamenn ekki enn búnir að „sjá fyrir endann á því að fá í gegn þá hógværu kröfu að fá 48 róðrardaga.“ 

Svandís undirritaði í vikunni nýja reglugerð um strandveiðar þar sem 1.500 tonnum var bætt í pottinn, en hún segir þessi 1.500 tonn ekki hafa skilað sér af skiptimörkuðum á útmánuðum og því hafi verið hægt að bæta þeim við.

Hlutfallið aldrei hærra

„Hlutfall strandveiða af leyfilegum heildarafla þorsks nemur því 4,5% og hefur ekki hefur svo stórum hluta aflans áður verið úthlutað til strandveiða,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

„Þessari ákvörðun er ætlað að festa strandveiðar enn betur í sessi, en í dag fá margar fjölskyldur hluta sinna heimilistekna frá strandveiðum.“

Svandís segist enn fremur hafa fengið fjölda erinda frá strandveiðimönnum þar sem hún hafi verið hvött til að „taka til skoðunar hvernig bæta megi kerfið þannig að verðmætasköpun verði sem mest og jafnræði landsvæða sem best.“ 

Þessa hvatningu segist hún taka alvarlega og slík vinna hafi verið sett af stað.

„Við bíðum eftir því að sjá hvað gerist í þeim efnum,“ segir Arthur. „En það er alveg rétt hjá henni varðandi til dæmis jafnræði milli landshluta, að það er ekki fyrir hendi  eins og sakir standa og það er spurning hvað hún hyggst gera í þeim efnum. En málið er að 48 daga trygging er lausn a þessu vandamáli. Þá þarf ekkert að þrasa um þetta, þá eru menn með sína 48 daga hvort sem þeir eru fyrir austan eða vestan eða annars staðar. Við munum áfram leggja höfuðáherslu á að þessir 48 dagar verði settir í lög.“

Brotabrot af stofninum

Hann segir enga ástæðu til að hafa áhyggjur af því þótt heildarveiðin verði þá eitthvað meiri.

„Við erum þá að tala um brotabrot af þorskstofninum, og það fær ekki nokkur einasti maður einn einasta trillukarl til þess að trúa því að það skipti máli hvort að handfæramenn veiða 10 þúsund tonn eða þess vegna 20 þúsund tonn. Þetta er brotabrot af stofninum.“

Hvað varðar hinn þáttinn, sem ráðherra segir að huga þurfi að, nefnilega að verðmætasköpun í strandveiðum geti orðið sem mest, þá segir Arthur það hljóma „pínulítið eins og gömul klisja að þurfa að laga aflameðferð eða eitthvað í þeim dúr. Í gegnum tíðina hefur alltaf verið lögð höfuðáhersla á að menn gangi vel um aflann og það hefur gengið eftir. Við höfum fengið staðfestingar á þessu bæði frá Mast, Matís og fiskkaupendum, að þessir hlutir eru komnir í mjög gott lag. Í upphafi kerfisins voru náttúrlega menn að koma inn sem voru óvanir og það þurfti að lagfæra ýmislegt og það hefur verið gert.“

Bongóblíðan í fyrra

Strandveiðar sumarsins hefjast næsta mánudag og fyrirkomulagið er með sama hætti og undanfarin ár. Hverjum bát er heimilt að stunda veiðar í tólf daga í mánuði, frá maíbyrjun til ágústloka. Ekki er þó heimilt að veiða á föstudögum, laugardögum og sunnudögum.

Síðustu árin hafa hátt í sjö hundruð bátar verið á strandveiðum og aflinn síðasta ár varð 12.170 tonn, þar af 11.159 tonn af þorski. Arthur segist hafa það á tilfinningunni að fleiri muni reyna fyrir sér á þessu ári.

„Ég yrði ekki undrandi þó það mundi fjölga núna frá því í fyrra. Það kæmi mér eiginlega á óvart ef það yrði ekki. Það eru góð fiskverð og menn muna náttúrlega alltaf best eftir því sem gerðist næst þeim í tíma, og vertíðin í fyrra endaði alveg í bongóblíðu, mokfiskeríi og háu fiskverði. Menn byrja hugsanlega á þeim tímapunkti, í huganum að minnsta kosti, og það smitast út frá sér.“