sunnudagur, 24. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rannsóknir í Djúpinu og Arnarfirði

7. október 2021 kl. 14:33

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson. Mynd/Svavar

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson er nú í 13 daga leiðangri í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi. Unnið er að fjölbreyttum verkefnum.

Frá árinu 1988 hefur verið farið árlega í leiðangra til að meta stofnstærð rækju. Niðurstöður úr mælingunum eru notaðar til að veita stjórnvöldum ráðgjöf um veiðar á innfjarðarækju. Ýmsum öðrum upplýsingum er safnað, meðal annars um útbreiðslu, magn og lengd allra fisktegunda í báðum fjörðunum og einnig er afrán þorsks, ýsu og lýsu kannað.

Til að meta áhrif fiskeldis á lífríki er upplýsingum safnað í Arnarfirði. Með slíkri árlegri vöktun fást upplýsingar um þéttleika og samsetningu botndýra á fjarsvæðum eldissvæða og breytingar sem þar gætu orðið.

Árið 2001 hófst ítarleg kortlagning hitafars og seltu í þessum tveim fjörðum. Þá voru settar út sérstakar stöðvar þar sem árlega hefur verið safnað upplýsingum. Á undanförnum árum hafa einnig verið gerðar mælingar á styrk súrefnis og næringarefna.

Rannsóknir á ungþorski eru jafnframt framkvæmdar. Haldið verður áfram með merkingar á þorski en átak hófst í þorskmerkingum árið 2019. Inn á fjörðum er einblínt á merkingar á ungþorski til að meta hvert og hvenær hann fer til hrygningar.