laugardagur, 4. desember 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rétt viðbrögð skipverja skiptu sköpum

28. október 2021 kl. 10:00

Vestmannaey VE. Mynd/Smári Geirsson

Skipverjar fylgdu öryggisáætlun og brugðust hárrétt við. Þess vegna varð lágmarkstjón.

Slökkviliðsstjórinn í Fjarðabyggð segir snör og rétt viðbrögð skipverja á Vestmannaey hafa skipt sköpum við að lágmarka tjón þegar að eldur kom upp í skipinu í gærdag. Eldurinn var dauður þegar skipið kom til hafnar í Neskaupstað á öðrum tímanum í nótt.

Þetta kemur fram hjá Austurfrétt þar sem talað er við Sigurjón Valmundsson, slökkviliðsstjóra.

„Eldurinn kemur upp í vélarrými og þeir reyna að slökkva þegar þeir verða varir við hann. Þegar það gengur ekki með venjulegum slökkvitækjum loka þeir rýminu og setja slökkvikerfi í gang sem virðist hafa kæft þetta.

Þeir fylgdu öryggisáætlun og brugðust hárrétt við. Þess vegna varð lágmarkstjón. Ég er hæstánægður með viðbrögð skipverja,“ segir Sigurjón.

Eldur kom upp í skipinu þegar það var á leið inn til Norðfjarðar um klukkan fjögur í gær. Systurskip þess Bergey var að veiðum skammt frá og tók það í tog. Ferðin sóttist nokkuð vel, enda sjólag gott og skipin komu til hafnar í Neskaupstað um klukkan tvö í nótt.

Sigurjón segir í frétt Austurfréttar að búið hafi verið að skanna skipið með hitamyndavélum sem bentu til þess að tekist hefði að slökkva eldinn.

„Við vorum með fullan viðbúnað því maður veit aldrei hvað blasir við í svona rými sem lokað hefur verið. Þeim tókst hins vegar að slökkva eldinn strax í byrjun og því fólst okkar vinna í að reykræsta og fara yfir stöðuna.“

Aðspurður lýsir Sigurjón skemmdunum sem ótrúlega litlum miðað við það sem hefði getað orðið. Skaði sé þó af svona eldsvoða og líkur á að skipið verði stopp í einhvern tíma. Aðgerðum slökkviliðs lauk um klukkan fimm í morgun.

Uppfært 13:08

Á heimasíðu Síldarvinnslunnar er fjallað um málið og rætt við skipstjórann Birgi Þór Sverrisson. Sjá hér.