laugardagur, 24. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Samherji með áform um fiskeldi í Helguvík

14. október 2020 kl. 12:56

Fiskeldi Samherja á Stað við Grindavík. Mynd/Samherji

Norðurál og Samherji fiskeldi, sem er hluti af samstæðu Samherja, hafa skrifað undir viljayfirlýsingu í tengslum við kaup á eignum Norðuráls í Helguvík. Samherji fiskeldi er með möguleika til laxeldis á lóðinni til skoðunar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu en Fréttablaðið greindi fyrst frá áformunum.

Í tilkynningunni segir að Samherji hefur hafið frumathugun á aðstæðum til laxeldis í Helguvík og er niðurstöðu að vænta fyrir áramót

Á Suðurnesjum er Samherji fiskeldi þegar með sláturhús og vinnslu í Sandgerði, eldisstöð á Stað við Grindavík og eldisstöð á Vatnsleysuströnd. Samherji fiskeldi er svo að auki með landeldi á laxi á Núpsmýri við Kópasker og seiðastöð á Núpum í Ölfusi.

Samherji fiskeldi hefur einkum lagt áherslu á landeldi í sínum rekstri og er stærsti framleiðandi bleikju í heiminum með tæplega 3.800 tonn árlega. Þá framleiðir félagið um 1.500 tonn af laxi. Næstu vikur mun félagið kanna hagkvæmni og möguleika á því  að byggja landeldisstöð við eignirnar sem nú standa í Helguvík.

Vegna þessara áforma áttu starfsmenn Samherja fiskeldis fund með bæjarstjórum Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar. Á þessum fundi voru bæjarstjórarnir upplýstir um stöðuna og voru lagðar fyrir þá spurningar sem skipta miklu máli við mat á möguleikum svæðisins til laxeldis.

„Samherji fiskeldi er hefur áhuga á að vaxa í landeldi á laxi og er með mögulega staðsetningu í eignum Norðuráls í Helguvík til skoðunar. Á næstu vikum munum við fara yfir forsendur og möguleika til laxeldis á svæðinu áður en frekari ákvarðanir verða teknar,“ segir Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis.