sunnudagur, 11. apríl 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Samið um smíði verksmiðju Síldarvinnslunnar

7. mars 2021 kl. 09:02

Síldarvinnslan var stofnuð árið 1957 og höfuðstöðvar félagsins í Neskaupstað. Starfsemi félagsins er fjölþætt og þar starfa um 360 manns. Mynd/Þorgeir Baldursson

Samningur Síldarvinnslunnar og Héðins er upp á 1,7 milljarð króna og gert ráð fyrir að verksmiðjan verði afhent í maímánuði 2022.

Forsvarsmenn Síld­ar­vinnsl­unnar og vélsmiðjunnar Héðins undirrituðu í gær samn­ing um smíði á 380 tonna fiskimjölsverksmiðju sem sett verður upp í Neskaupstað.

Frá þessu var greint á heimasíðu fyrirtækisins.

Nýlega var greint frá því að Síldarvinnslan hygðist stækka fiskimjölsverksmiðju sína í Neskaupstað úr 1400 tonna sólarhringsafköstum í 2380 tonna afköst og jafnframt yrði komið upp lítilli verksmiðjueiningu sem gæti afkastað allt að 380 tonnum á sólarhring en umræddur samningur fjallar einmitt um þá einingu, segir í fréttinni.

Samningurinn við Héðin um smíði á litlu verksmiðjueinunginni er upp á 1,7 milljarð króna og samkvæmt honum er gert ráð fyrir að verksmiðjan verði afhent í maímánuði 2022.

„Tilgangurinn með því að koma upp lítilli verksmiðjueiningu er að auka hagkvæmni til dæmis með því að spara orku og gert er ráð fyrir að á síldar- og makrílvertíð verði einungis litla verksmiðjan starfrækt enda fer megnið af síldinni og makrílnum til manneldisvinnslu. Á smærri loðnuvertíðum ætti einnig að vera nægilegt að reka einungis litlu verksmiðjueininguna. Sem dæmi má nefna að á yfirstandandi vertíð voru 9700 tonn af loðnu fryst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar en einungis 120 tonn fóru til vinnslu í fiskimjölsverksmiðjunni. Vinnsla á kolmunna mun hins vegar fara fram í stóru verksmiðjunni sem verður þá rekin með hámarksafköstum,“ segir þar.

Síldarvinnslan hefur um nokkurra ára skeið unnið að þróunarverkefnum með MATÍS þar sem skoðaðir eru möguleikar á að framleiða verðmætara prótein og lýsi úr því hráefni sem kemur til vinnslu í fiskimjölsverksmiðjunni.

„Það er ekki síst aukinn ferskleiki hráefnisins sem gerir það kleift að auka verðmætin. Samhliða þeim framkvæmdum sem áður er lýst hefur verið unnið að uppsetningu á lítilli tilraunaverksmiðju með spreyþurrkun og ýmsum öðrum búnaði með möguleika á annars konar framleiðslu en hefð er fyrir.“