laugardagur, 24. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Samkomulag forsenda vottunar á síld

Guðsteinn Bjarnason
12. október 2020 kl. 12:40

Afar góð síldveiði er fyrir austan þessa dagana en blikur eru á lofti með vottun tegundarinnar. Mynd/Hákon Ernuson

MSC-vottun síldveiða rennur út um áramót

Um áramótin næstu renna út vottunarskírteini frá MSC fyrir síldveiðar í Norðaustur-Atlantshafi. Vottunarsamtökin Marine Stewardship Council (MSC) hafa sent frá sér viðvörun um að vottunin verði ekki framlengd nema strandríkin komi sér saman um skiptingu veiðanna.

Kaupendur hafa í auknum mæli krafist þess að veiðarnar séu vottaðar.

Strandríkin við Norður-Atlantshaf hafa verið Ísland, Grænland, Noregur, Evrópusambandsríkin og Rússland. Nú er Bretland gengið úr Evrópusambandinu og orðið sjálfstætt strandríki.

Síðar í mánuðinum hefjast hinar árlegu samningaviðræður um veiðar úr uppsjávarstofnunum þremur, makríl, síld og kolmunna, og einnig þarf að semja um karfa.

Árum saman hefur ekki tekist að ná samkomulagi milli allra ríkjanna um þessar veiðar, með þeim afleiðingum að samtals hafa veiðarnar farið töluvert umfram ráðleggingar Alþjóðahafrannsóknaráðsins.

Af þeim sökum framlengdi MSC ekki makrílvottun á síðasta ári. Nú er röðin komin að síldinni og kolmunnavottun er sömuleiðis í hættu á að falla.

Hvað síldina varðar veiddu strandríkin samtals 777 þúsund tonn árið 2019, eða 32 prósent umfram ráðgjöf.