sunnudagur, 25. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Segir lagaumhverfið henta illa

Guðsteinn Bjarnason
3. október 2020 kl. 07:00

Laxeldisfyrirtækið Arnarlax er með höfuðstöðvar í Vesturbyggð. Aðsend mynd

Bæjarstjóri Vesturbyggðar að vonum ánægð með uppgang vegna fiskeldis en auknum umsvifum fylgja vaxtarverkir

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, segir fiskeldið óneitanlega hafa haft góð áhrif og snúið við þeirri íbúaþróun sem var á niðurleið allt til ársins 2009 þegar ákveðnum botni var náð. Hún fór yfir þessi mál í erindi sínu á Sjávarútvegsdeginum.

„Þetta hefur haft gríðarleg áhrif og verið viðspyrna gegn þeirri þróun sem hafði verið í gangi hér. Svo það sem gerist með auknum atvinnutækifærum að það koma alls konar hliðarverkefni og fólk fer að sjá fleiri tækifæri þó það sé ekki beint í fiskeldi. Það er einhver drifkraftur sem fer af stað og hjólin fara að snúast,“ segir hún í spjalli við Fiskifréttir.

Hún segir þennan viðsnúning þó ekki eingöngu fiskeldinu að þakka. Vesturbyggð nái yfir stórt landsvæði þar sem landbúnaður hefur löngum verið mikilvægur.

„Það eru tvö stór landbúnaðarsvæði hjá okkur og á þessum árum er algert hrun. Sem betur fer sem er svo ánægjulegt að ungu fólki er núna að fjölga í landbúnaði á Barðaströnd. Það er einhver kraftur og áhugi hjá unga fólkinu að koma hingað og búa hér.“

Dálítið hugsi

Spurð út í áhrif þess að fiskeldið er nú í eigu Norðmanna segist hún ekki sjá að það hafi haft mikil áhrif á tekjur sveitarfélagsins eða annað.

„Við erum samt dálítið hugsi yfir því að það fylgja ekki jafn margir með hverju starfi eins og er á landsvísu hjá okkur. Auðvitað er töluvert af erlendu vinnuafli í fiskeldinu líka, sem þarf ekki að vera neitt neikvætt. Það eina sem maður hefur fundið er kannski að þegar þessi tenging við samfélagið rofnar, þá tekur smá tíma að finna tengslin aftur, sem ég held að sé ekkert óeðlilegt.“

Óneitanlega skapast þó ákveðnar áskoranir vegna þess að lagaumhverfið í Noregi er ólíkt því sem hér er.

„Við höfum verið að fást svolítið við að útskýra að svona er þetta bara þó það sé öðru vísi í Noregi. Svo náttúrlega höfum við verið aðeins að takast á með aflagjöldin og gjaldtökuheimildirnar í hafnalögunum. Ég held að það kristallist líka svolítið vel í því að þú tekur ekki einhver ákvæði sem voru samin fyrir sjávarútveg og heimfærir það upp á fiskeldi. Þú ert bara með allt annan rekstur heldur en hvíta fiskinn þar.“

Barist um tekjur

Hún segir því mikilvægt að lagfæra lagaumhverfið í tengslum við fiskeldið hér á landi.

„Þetta þarf að vera þannig að það sé alveg skýrt hvaða gjald er verið að taka. Við, þessi sveitarfélög sem erum með fiskeldi, höfum líka verið að benda á að það þurfi að horfa á þetta í aðeins víðara samhengi. Við vorum ekkert mjög sátt við það þegar Fiskeldissjóður var settur á og við þurftum að fara að berjast við hin fiskeldissveitarfélögin um einhverjar tekjur af leyfunum. Þar hefðum við viljað sjá bara norsku leiðina þar sem tekjurnar renna til sveitarfélaganna. Svo verður líka að vera rekstrarumhverfi sem gengur upp fyrir fyrirtækin líka. Þetta þarf einhvern veginn að haldast í hendur.

Auk þess er heilmikið annað sem þyrfti að skoða út frá því bara hvernig fiskeldið er, eins og í hafnalögunum,“ og bendir á að umferð í höfnunum sé miklu meiri vegna þjónustubátanna. „Þetta er allt öðru vísi en þegar þú ert með togara sem kemur hérna á einhverjum daga eða vikna fresti.“

Framkvæmdir á hafnarsvæði

Auknum umsvifum fylgja líka ákveðnir vaxtarverkir, ekki síst á hafnarsvæðinu þar sem fara þarf í framkvæmdir, stækka og bæta.

„Það var eiginlega hálfgert neyðarástand á Bíldudalshöfn í fyrra og við höfðum áhyggjur af þeim sem voru að vinna á höfninni. Þar er Arnarlax með sína slátrun og allur eldisfiskur úr fjörðunum hérna sunnan megin, alveg að Dýrafirði fer til slátrunar á Bíldudal. Samskip voru byrjuð að sigla til okkar að sækja eldisfisk, og svo erum við með Íslenska kalkþörungafélagið líka, þannig að það var dáldið mikill kaos.“

Sveitarfélagið fékk framlög á samgönguáætlun til að lengja hafskipakantinn og endurnýja stálþil og annað.

„Sú framkvæmd er bara í fullum gangi. Við náum nú sennilega ekki að steypa þekjuna á höfnina í ár en það verður gert strax og veður leyfir í vor. Svo fengum við fjármagn í gegnum sérstakt fjárfestingarátak ríkisins fyrr á þessu ári til þess að fara í landfyllingu og það fer að byrja á næstu vikum.“