sunnudagur, 7. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Segir sjómenn ofsótta

Guðsteinn Bjarnason
11. febrúar 2021 kl. 11:18

Bátur Kristins Guðmundssonar, Birna GK-154. Aðsend mynd.

Fylgst var með veiðum úr dróna og gerð athugasemd við að þremur tindabikkjum var hent í hafið. Kristinn Guðmundsson spyr hvers konar ríki hann býr í.

„Ég veit ekki hvers konar ríki þetta er sem maður býr í. Að vera að nota menn í fullri vinnu í svona lagað,“ segir Kristinn Guðmundsson í Sandgerði. Hann var að setjast að matarborðinu heima hjá sér síðastliðinn föstudag þegar pósturinn bankaði upp á með bréf frá Fiskistofu.

Í bréfinu segir að sést hafi til bátsins að veiðum austan við Brimketil á Reykjanesi og náðst upptaka af því þegar þremur tindabikkjum var hent í sjóinn.

Fiskistofa lætur sér duga að veita áminningu í þetta skiptið, en bendir á að „verði skipið aftur staðið að slíku broti megi reikna með því að tekin verði ákvörðun um beitingu viðurlaga.“

Ekkert á móti eftirliti

Kristinn segist gjöramlega gáttaður á þessu þótt hann hafi í sjálfu sér ekkert á móti eftirliti.

„Ef ég vissi að það væri verið að taka mynd af mér og ég væri spurður hvort það væri í lagi þá myndi ég segja já. En þessi vinnubrögð að það sé komið í hnakkann á mér og að maður eigi von á því að það sé alltaf myndavél á þér leynilega.“

Fiskistofa hefur greint frá því að drónar hafi verið keyptir í haust og teknir í notkun núna upp úr áramótum. Öll leyfi hafi fengist hjá Persónuvernd og eftirlitsmenn hafi fengið fræðslu um gildandi reglur og fyrirmæli Persónuverndar.

„Ég skil ekki alveg hvort lögin nái yfir þetta,“ segir Kristinn. „Er nóg að fá leyfi frá persónuvernd?“

Hann bendir á að drægni drónanna nær ekki „nema rétt út fyrir fjöruborðið, og hverjir eru þar? Það eru minnstu bátarnir sem liggja þar, en þessir sem geta siglt lengra, það er ekkert eftirlit á þeim. Þannig að þarna er líka verið að mismuna við eftirlitið. Þetta eru bara orðnar ofsóknir.“

Verðlaus og til vandræða

Fiskistofa segist í bréfinu hafa fengið upplýsingar hjá fiskmörkuðum um að tindabikkja seljist og hafi verðgildi. Þess vegna gildi um hana sú regla að bannað sé að varpa henni fyrir borð, jafnvel þótt heimild sé til þess í lögum og reglugerðum að varpa fyrir borð verðlausum fiski. Kristinn segir það þó engan veginn hægt að ganga að því vísu að tindabikkjan seljist.

„Það er mjög sjaldan, þú þarft þá að landa einhverju magni af þessu. Þú selur ekki þrjár tindabikkjur sem eru kannski innan við kíló stykkið. Þú berð bara kostnaðinn af þessu.“

Ef komið er með fiskinn í land og hann settur á markað þá þurfi að greiða bæði löndunargjald, uppboðsgjald og förgunargjald.

„Fyrir utan það að á sama tíma eru þeir að mælast til þess að maður sleppi hlýra lifandi, en hlýri veiðist yfirleitt ekki nema á króka og hann situr þá með krókinn í hálsinum. Sama er með lúðuna, en svona kvikindi sem kemur í netin það spriklar lifandi og fer bara beint niður á botn aftur.“