þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Segir tíma uppbyggingar framundan

7. janúar 2021 kl. 12:55

Drangey SK bættist í skipaflota FISK Seafood í ágúst 2019. Frekari endurnýjun skipakosts er á teikniborðinu. Mynd/Bergþór Gunnlaugsson

Hagnaður frá rekstri FISK Seafood og dótturfélaga nam um þremur milljörðum króna. Nú er horft til endurnýjunar skipa og uppbyggingu húsakosts, að sögn framkvæmdastjóra.

Framundan eru tímar fjárfestinga og uppbyggingar hjá FISK Seafood. Það á bæði við um endurnýjun skipa og uppbyggingu húsakosts fyrirtækisins en afkoma þess var með ágætum á nýliðnu ári. Hagnaður frá rekstri FISK Seafood og dótturfélaga nam um þremur milljörðum króna.

Þetta er meðal þess sem Friðbjörn Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri FISK Seafood, kemur inn á í nýárskveðju sinni til starfsfólks og birt er á heimasíðu fyrirtækisins.

„Togarinn Málmey og frystiskipið Arnar nálgast nú þann aldur að þörf er á endurnýjun. Sömuleiðis þarf að hefja undirbúning mikillar uppbyggingar og endurnýjunar húsakosts á eyrinni hér á Sauðárkróki til þess að styrkja rekstur fiskvinnslunnar til muna. Framundan eru því umtalsverðar fjárfestingar, m.a. með niðurrifi húsakosts og nýbyggingum, nýjum tækjabúnaði, t.d. fyrir svokallaða Skinpack-framleiðslu, o.fl. Með nýjum skipum og endurnýjuðu frystihúsi munu aðstæður okkar til veiða og vinnslu verða í allra fremstu röð hér á landi,“ skrifar Friðbjörn.

Friðbjörn fjallar um að á undanförnum mánuðum hefur verið gert átak við að bæta ásýnd vinnusvæða fyrirtækisins.

„Næsti áfangi þessa átaks hefur verið að koma vannýttu húsnæði á okkar vegum í endurnýjun lífdaga. Við höfum selt tvær eignir í Grundarfirði og losað um eignarhald okkar á fasteigninni sem áður hýsti frystihúsið á Hofsósi. Framundan er einnig að afhenda sveitarfélaginu á Skagaströnd án endurgjalds svokallað stjórnsýsluhús þar sem Vinnumálastofnun er nú til húsa ásamt skrifstofum sveitarfélagsins o.fl. Jafnframt hefur verið ákveðið að afhenda sveitarfélaginu með sama hætti mannvirkin tvö sem áður hýstu gömlu síldarvinnsluna og rækjuvinnsluna. Þannig öðlast allmargir vannýttir húsnæðisfermetrar nýtt líf og hlutverk. Vonandi verður þetta framlag FISK Seafood atvinnulífinu á Skagaströnd mikilvæg lyftistöng.“

Friðbjörn segir jafnframt að þegar horft er til nauðsynlegra fjárfestinga þurfi á sama tíma einnig að rýna í flóknar stöður reksturs sem ekki hefur til þessa verið arðbær. Bleikjueldi í Þorlákshöfn og á Hólum er þar á meðal, að hans sögn.

Þá segir hann að „stjórnvöld á Íslandi hafa lengi daufheyrst við óskum okkar og sveitarfélagsins um bætta hafnaraðstöðu og hafnarbát hér á Sauðárkróki. Höfnin er mikilvæg útflutningshöfn á norðurlandi og hún er líka orðin umsvifamikil í uppskipun alls kyns aðfanga fyrir rekstur og framleiðslu í landshlutanum. Skipin sem hingað koma fara stöðugt stækkandi og öryggið sem stærri höfn og góður dráttarbátur færir okkur er gífurlega mikilvægt. Að þessari uppbyggingu þurfa stjórnvöld að huga samhliða því sem atvinnulífinu í Skagafirði hefur með ýmsum hætti vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum og heldur því vonandi áfram.“