þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Segja stutt í dómsdagsspárnar

10. maí 2021 kl. 07:00

Heimild: Hagstofan, Seðlabanki Íslands og SFS.

SFS um útflutning á óunnum fiski.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja ýmsa þætti ráða því hvort hagkvæmara er að vinna fisk heima eða flytja hann óunninn úr landi. Frá árinu 1992 hafi á bilinu 5 til 15 prósent af botnfiskaflanum verið fluttur út óunninn.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) segja óunninn fisk alla tíð hafa verið fluttan út í einhverjum mæli. Frá árinu 1992 hefur magnið sveiflast á bilinu frá 25 til 80 þúsund tonn, en þetta hafa verið á bilinu 5-15% af botnfiskaflanum.

Samtökin segja að engan skyldi undra þótt fiskur, heill og óunninn, sem fluttur er úr landi sé „hugðarefni margra“ enda sé þar „um að ræða hráefni sem gæti oft og tíðum verið unnið í vinnslu hér á landi. Fyrir suma innlenda aðila eru umtalsverðir hagsmunir í húfi.“

Hins vegar sé það „gömul saga og ný að dómsdagsspár um framtíð fiskvinnslu á Íslandi eru settar fram þegar útflutningur á óunnum fiski eykst.“

Hagsmunir fiskvinnslunnar

Hagsmunir fiskvinnslunnar séu þar ekki síst undir.

„Í fiskvinnslu er það ekki síst hámarksnýting á fjárfestingum í húsnæði, vélum og tækjum sem ræður endanlegri rekstrarniðurstöðu,“ segir í ársskýrslunni, en því síðan hnýtt við að útflutningur á óunnum fiski hafi „gjarnan sveiflast í andstöðu við þróun raungengis.“

Þetta þurfi „ekki að koma á óvart, enda eru nær allar tekjur fiskvinnslna í erlendri mynt og nær allur kostnaður í íslenskum krónum. Þetta þýðir að þegar gengi krónunnar er sterkt er hlutfallslega „dýrara“ að framleiða útflutningsvörur hér á landi.“

SFS segir það þó fleira en krónuna og samkeppnishæfni sem ákvarði hvort hagstæðara sé að flytja út heilan fisk. Þar spili til dæmis líffræðilegir þættir og markaðstengdir inn í, og dæmi tekið af ýsunni sem henti illa til verkunar þegar hún er smá. Verðið á smáýsu geti auk þess verið lágt.

Fiskstærð og stofnstærð

„Þegar mikið er um smærri ýsu í afla má leiða líkur að því að útflutningur á óunninni ýsu sé meiri. Þetta á sömuleiðis við þegar ýsukvótinn er mjög stór, eins og var tilfellið í kringum árið 2008. Þannig var hlutdeild ýsuafla, sem fór óunninn út, á bilinu 10-30% á tímabilinu 1992-2020.“

Samkvæmt því sem SFS segir þarna má væntanlega búast við því að meira verði flutt út af óunninni ýsu, fari svo að ýsukvótinn verði aukinn umtalsvert á næstunni.

„Svipaða sögu er að segja um margar aðrar tegundir, eins og ufsa, karfa og ýmsa flatfiska. Ýmist henta þær einfaldlega illa til vinnslu eða lágt verð leiðir til þess að það borgar sig ekki að vinna þær hér á landi umfram heilfrystingu eða hausun,“ segir ennfremur í skýrslunni.

Allt aðra sögu sé þó að segja af þorskinum, þeirri tegund sem Íslendingar veiða hvað mest af en hann er „jafnframt sú tegund sem skapar mestu tækifærin til verðmætasköpunar í fiskvinnslu. Áhyggjur innlendra aðila beinast því eðli máls samkvæmt einkum að þorski þegar óunninn fisk ber á góma.“

Afstæði samhengis

SFS segir að á tímabilinu 1992-2020 á bilinu 2.000-16.500 tonn af óunnum þorski verið flutt út árlega, en það var um 1-6% af heildarafla þorsks ár hvert. Það sé því „óhætt að fullyrða að útflutningur á óunnum þorski hefur, í gegnum tíðina, ekki verið umfangsmikill í hinu stóra samhengi. Að því sögðu má þó ekki vanmeta umfangið í samhengi einstakra fiskvinnslna, sem jafnvel reiða sig á framboð á innlendum fiskmörkuðum."

Sumar af fiskvinnslum landsins vinni aðeins fáein þúsund tonn af þorski á ári, „og því getur verið um að ræða mikið magn sem fer óunnið út, séð frá sjónarhóli einstakra fyrirtækja.“