föstudagur, 22. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Semur fyrir hönd Grænlands

Guðjón Guðmundsson
30. desember 2020 kl. 09:00

Hilmar Ögmundsson, sérfræðingur og ráðgjafi hjá grænlenska fjármálaráðuneytinu, hér til hægri, ásamt Gunnari Haraldssyni en þeir tóku þátt í að móta nýtt veiðigjaldakerfi á Grænlandi. . Mynd/GB

Einn þeirra sem átti stóran hlut að máli við innleiðingu veiðigjalda á Grænlandi er Hilmar Ögmundsson. Hilmar er sérfræðingur og ráðgjafi hjá grænlenska fjármálaráðuneytinu og situr nú í grænlensku fiskveiðinefndinni, Fiskerikommissionen.

Þau mál sem tengjast sjávarútvegi og fjármálum tengdum greininni eru á verksviði Hilmars. Hann rýnir þau mál og veitir umsagnir til ráðuneytisins. Hilmar situr ennfremur fyrir hönd grænlenska fjármálaráðuneytisins í samninganefnd landsins við Evrópusambandið. Verkefni hans er að meta áhrif mismunandi tillagna hvað varðar aðgang Evrópusambandsins að fiskveiðilögsögu landsins. Verið er að endurskoða núverandi samning við Evrópusambandið sem tók gildi 2016 og rennur út í árslok 2020.

Endurspeglar ekki verðmæti heimildanna

Samningurinn hljóðar nú upp á 1.800 tonna heimildir ESB í þorski,  4.200 tonn af karfa, um 7.700 tonn af grálúðu, 2.600 tonn af rækju við Vestur-Grænland og 5.100 tonn við Austur-Grænland, 20.000 tonn af loðnu og eitthvað af öðrum tegundum. Fyrir heimildirnar hefur ESB greitt Grænlendingum um 130 milljónir DKK á ári, tæpa 3 milljarða ÍSK við fulla nýtingu á samningnum. Inn í þessum 130 milljónum er einnig eyrnamerktur styrkur til þróun sjávarútvegs á Grænlandi. Á þessu fjögurra ára tímabili hefur söluverð á t.d. rækju og grálúðu hækkað um 30-40% og hefur því verðmæti samningsins hækkað umtalsvert. Ráðgjafafyrirtækið Poseidon sem vann skýrslu fyrir ESB um beina og afleidda verðmætasköpun innan ESB í tengslum við fiskveiðisamninginn komst að þeirri niðurstöðu að samningurinn sé afar hagstæður ESB. Grænlendingar líta einnig til þess að frá árinu 2016 hefur veiðigeta þeirra sjálfra aukist verulega. Frá þessum tíma hafa bæst við níu nýir togarar í flota Grænlendinga.  Frá 2006 hefur ESB einungis greitt fyrir veiðanlegan fisk í samningnum við Grænland en sá hluti greiðslunnar sem áður var fyrir óveiðanlegan fisk rennur nú til Grænlands sem styrkur að upphæð 220 milljónir DKK ári og hefur verið eyrnamerktur menntakerfinu þar í landi. Í tenglsum við fiskveiðisamninginn nýtur Grænland að auki tollfrelsis grænlenskra sjávarafurða inn í ESB. Það er því flókin og krefjandi vinna sem bíður nefndarinnar.

Grænland og aðrir fiskveiðisamningar

Grænland er með aðra milliríkjasamninga sem huga þarf að, t.a.m. skipti á kvótum við Rússland, Noreg, Færeyjar og loðnusamninginn við Ísland. Hilmar situr einnig meðal annara í þessum samninganefndum Ísland og Grænland standa að sameiginlegri nefnd varðandi deilistofna sem meðal annars setur sameiginlegan kvóta fyrir löndin á grálúðu og karfa milli Austur-Grænlands og Íslands. Í grálúðunni er hlutur Grænlendinga tæp 38% meðan afgangurinn felllur í hlut Íslendinga. Í karfanum er hlutur Grænlendinga enn rýrari, eða um 10% heildarkvótans. Í loðnunni fær Grænland 15% af heildarkvótanum.

Annað mikilvægt verkefni sem Grænlendingar standa frammi fyrir eru samningar við Bretland í kjölfar útgöngu landsins úr Evrópusambandinu. Grænlendingar nutu tollfrelsis í Bretlandi meðan landið var aðildarríki ESB en nú þarf að semja upp á nýtt. Grænlendingar hafa ekki hafið formlegar viðræður um fríverslunarsamning en þrátt fyrir tímaþröng vonast landið til að geta landað samning fyrir 1. janúar 2021. Hilmar hefur tekið þátt í þeirri vinnu. Fríverslunarsamning við Bretland  yrði þá fyrsti fríverslunarsamningurnn sem Grænland gerir við aðra þjóð. Grænlendingar hafa flutt út vörur til Bretlands fyrir um 13 milljarða ÍSK á ári sem er um tólf prósent af heildar útflutningstekjum landsins.

Endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar

Stóra málið sem nú er innan stjórnsýslunnar á Grænlandi er allsherjar endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar. Hilmar situr í fiskveiðinefndinni svonefndu, Fiskerikommissionen, sem hefur þetta verkefni á höndum. Í nefndinni sitja auk þess hagsmunaaðilar úthafsveiða, smábátaeigendur, fjármálastofnanir og aðilar frá ýmsum ráðuneytum. Þá er einn fulltrúi frá hverjum stjórnmálaflokki tengdur nefndinni með þeim hætti að nefndarmenn upplýsa þá um gang mála en þeir hafa ekki aðgang að öllum gögnum fyrr en þau eru orðin opinber. Nefndin er því ópólitísk og hlutverk hennar að setja fram faglegar tillögur.

„Hlutverk nefndarinnar er að finna agnúana á kerfinu og hvar þörf er á endurbótum, jafnt á löggjöfinni og fiskveiðikerfinu einnig. Grænlendingar eru með framseljanlegar heimildir í rækju og í strandveiðum á grálúðu með bátum yfir 6 metrum. Í úthafsveiðum á grálúðu eru heimildirnar þó ekki framseljanlegar heldur gefinn út kvóti árlega eins og í þorski og karfa. Heimildir í strandveiðum á grálúðu með opnum jollum, á þorsk, á krabba og á grásleppu eru heldur ekki framseljanlegar. Við förum ofan í hvert einasta smáatriði og þarna liggur margt undir,“ segir Hilmar.

Slík endurskoðun fór síðast fram 2009. Hilmar rak þá sitt eigið fyrirtæki í Danmörku sem fór yfir útreikninga í tengslum við endurskoðunina þá. Endurskoðunin nú ristir dýpra í hverjum flokki fyrir sig. Markmiðið er að fiskveiðinefndin skili af sér tillögum til laga, í febrúar 2021, þannig að lokaafurð hennar verði í raun nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi sem verður lagt fyrir grænlenska þingið sem lagafrumvarp. Slíkt hefur ekki verið gert áður.

95% af útflutningstekjunum

Sjávarútvegur stendur undir um það bil 95% af útflutningstekjum Grænlands sem voru á síðasta ári nálægt 100 milljörðum ÍSK. Sjávarútvegur og tengdar greinar standa undir 25-30% af þjóðarframleiðslunni. Stór hluti þjóðarframleiðslunnar eru tekjur sem koma erlendis frá í formi ríkisframlags frá Danmörku til Grænlands og greiðslur frá ESB. Kæmi þessi stuðningur ekki til stæði sjávarútvegur undir nánast allri þjóðarframleiðslunni í Grænlandi.

„Sjávarútvegurinn er lang stærsta  einkaframtakið og skilar stórum tekjum til samfélagsins og ríkissjóðs Grænlands. Okkar hlutverk í nefndinni er að auka skilvirkni, stuðla að auknum fjárfestingum í greininni, setja upp hvata til þess að flotinn sé endurnýjist og hvernig liðka megi til í löggjöfinni þannig að fleiri dyr opnist fyrir fjármögnun inn í greinina. Þar er meðal annars litið til lífeyrissjóðanna í Grænlandi. Það eru ýmsar hömlur í löggjöfinni núna sem koma í veg fyrir að aðilar geti komið inn í greinina sem virkir eða óvirkir fjárfestar. Starf okkar miðast meðal annars að því að leita leiða til þess að hægt sé að nálgast fjármagn erlendis frá í meira mæli,“ segir Hilmar.

Í landvinnslunni eru engar hömlur á eignarhaldi og opið fyrir fjárfestingar innlendra sem erlendra fjárfesta. Erlend eignaraðild í rækjuveiðum er óheimil en í öðrum fiskveiðum má eignarhlutur erlendra aðila nema allt að 33,3%.

Þrjú fyrirtæki eru stærst og gnæfa yfir önnur grænlensk sjávarútvegsfyrirtæki; Royal Greenland, Polar Seafood og Arctic Prime Fisheries sem Brim hf. á þriðjung í. Royal Greenland og Ísfélagið í Vestmannaeyjum eiga saman Pelagic Greenland og Polar Pelagic, sem gerir m.a. út uppsjávarskipið Polar Amarok, er í eigu Síldarvinnslunnar og Polar Seafood.

Rætt hefur verið innan nefndarinnar hvort skynsamlegt gæti verið að leyfa með einhverjum hætti erlent eignarhald innan rækjuveiðanna og þá í þeim tilgangi að koma í veg fyrir mögulegt erlent skuggaeignarhald. Þetta er þó ekki úrlausnarefni innan Royal Greenland sem er 100% í eigu sjálfsstjórnarinnar.

Samkvæmt núgildandi lögum má einn aðili ekki eiga meira en 33% af úthafsrækjukvótanum og ekki meira en 15% af strandveiðirækju. Í strandveiðum á grálúðu á bátum yfir 6 metrum á lengd eru framseljanlegir kvótar og kvótaloftið er 5%. Ólympískar veiðar eru á grálúðu á bátum undir sex metrum.

Mikill hagnaður úthafsflotans

Umræða hefur verið um það innan Grænlands að eignarhald á kvótanum verði í dreifðari eigu. Kvótinn hefur safnast fyrir á fáar hendur ekki ólíkt því sem gerst hefur hér á landi. Polar Seafood á til dæmis um hluta af úthafsrækjukvótanum nálægt kvótaloftinu auk þess sem fyrirtækið á ákveðið hlutfall af standveiðikvótanum af rækju og beinan eða óbeinan eignarhlut í öðrum fyrirtækjum sem stunda strandveiðarnar. Eignarhlutur þeirra beinn og óbeinn er því mjög stór. Royal Greenland á einnig hluta af strandveiðifyrirtækjunum sem veiða rækju. Hilmar segir að þegar upp sé staðið eigi þessi tvö fyrirtæki beint eða óbeint meira helming afaf öllum rækjukvótanum. Ekkert í fiskveiðistjórnunarlögunum meinar fyrirtækjunum þetta. Það er til skoðunar í fiskveiðinefndinni að leggja til að kvótaloftið verði reiknað jafnt út frá beinni og óbeinni kvótaeign. Útfærslan yrði á þann veg að kaupi fyrirtæki 40% hlut í fyrirtæki sem á 10% rækjukvótans reiknist 40% af þessum 10% kvóta til kvótaeignar þess, svo dæmi sé tekið. Reiknað er með því að nefndin skili af sér tillögu um nýtt lagafrumvarp í febrúar á næsta ári.

Stærsti hluti úthafskvótans á þorski fellur í hlut Arctic Prime Fisheries. Fyrirtækinu er skylt að landa um helming aflans á Suður-Grænlandi en annað er unnið um borð og fryst og selt út á erlenda markaði.

„Úthafsflotinn í Grænlandi skilar stórkostlegum hagnaði. Sjö rækjutogarar annast veiðar á úthafsrækjukvótanum og þeir eru með að meðaltali um einn og hálfan milljarð króna á ári í hagnað fyrir skatta á núverandi gengi. Sé til dæmis miðað við rækjuverð á tímabilinu2015-2019 er hver togari að borga sig upp á fimm til sjö ára fresti og þrátt fyrir að veiðigjöld eru mjög há á Grænlandi,“ segir Hilmar.

5,7% af heildartekjum ríkissjóðs 

Tekin voru upp veiðigjöld á rækju árið 1983 í Grænlandi. Fram til ársins 2013 var það eina tegundin sem bar veiðigjald. Sem dæmi má nefna að árið 2005 skiluðu veiðigjöld af rækju 50.000 DKK í opinbera sjóði.

Veiðigjöldin af mikilvægustu fiskitegundunum eru hlutföll af veltu. Miðað við að meðal söluverð á hvert kíló sé 60 þá er veiðigjaldsprósentan af söluverðmæti 17,9%. Afkastamesti togarinn gæti því verið að greiða allt að 600 milljónir króna á ári í veiðigjöld en samt skilað yfir milljarði króna í hagnað eftir skatt.

Hilmar leiddi þá vinnu sem farið var í þegar veiðigjaldakerfið var endurskoðað á Grænlandi. Með honum í þessu verkefni var meðal annars Gunnar Haraldsson, fyrrum forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Ný lög um veiðigjöld voru samþykkt og tóku gildi 1. janúar 2018.

Lítil andstaða

„Hærri skattar eru auðvitað eitur í beinum flestra. En það sem kom okkur hve mest á óvart var hve lítil gagnrýni hefur verið sett fram á veiðigjöldin. Það helgast auðvitað af því að fiskverð er hátt og hagnaður útgerðanna er gríðarlegur," segir Hilmar.

Veiðigjöld eru lögð á allar efnahagslega mikilvægar tegundir í Grænlandi. Þau leggjast á allar úthafstegundir en ekki allar tegundir í strandveiðum, einungis á rækju og grálúðu. Í upphaflegri tillögu var gert einnig ráð fyrir veiðigjöldum á krabba, grásleppu og þorsk í strandveiðunum en það var pólitísk ákvörðun að horfið var frá því.

Veiðigjöld skiluðu grænlenska ríkinu 425 milljónum DKK árið 2018, tæpum 9,5 milljörðum ÍSK miðað við gengið í byrjun september. Á síðasta ári voru þau 405 milljónir DKK, rúmir 9 milljarðar ÍSK. Til samanburðar má nefna að veiðigjöld skiluðu íslenska ríkinu 11,5 milljörðum árið 2018 og 6,6 milljörðum 2019. Veiðigjöld per capita á Grænlandi voru því tæplega 168.000 krónur en 20.000 krónur á Íslandi árið 2019. Það ár voru veiðigjöldin um 5,7% af heildartekjum ríkissjóðs á Grænlandi. Hérlendis voru heildartekjur ríkissjóðs á árinu 872 milljarðar samkvæmt tölum Hagstofunnar og hlutfall veiðigjalds því 0,76% í heildartekjunum.

Strandveiðikvóti í þorski 28.300 tonn

„Að mínu mati væri hægt að hækka veiðigjöldin enn frekar að því gefnu til staðar sé kerfi til langs tíma sem atvinnugreinin getur treyst. Það vill auðvitað enginn fjárfesta í greininni ef sú hætta er fyrir hendi að stjórnmálaöfl gerbreyti forsendunum fyrir fjárfestingunni. Ef til staðar væru langtímaheimildir eða framseljanlegar heimildir í öllum úthafsveiðunum væri hægt að hækka veiðigjöld enn frekar án þess að það drægi úr gildi fjárfestingarinnar. Veiðigjaldið verður að vera tengt söluverðmætum því verði verðhrun á mörkuðum gæti ótengt veiðigjald gengið af veiðunum dauðum. Meðalverð á skelrækju á öðrum ársfjórðungi þessa árs hefur til dæmis lækkað úr 30 DKK í rétt rúmar 25 sem þýðir að veiðigjaldið fer niður í 14%,“ segir Hilmar.

Annað fyrirkomulag er varðandi veiðigjöld á strandveiðarnar. Flatt 5% veiðigjald er á rækju í strandveiðum en fari meðalverð á kíló undir 8 DKK er veiðigjaldið 5 aurar danskir á kíló. Sama fyrirkomulag er varðandi veiðigjald í strandveiðum á grálúðu nema prósentan er 5%. Ekkert veiðigjald er á þorski í strandveiðum en þess má geta að þorskkvótinn á yfirstandandi ári í strandveiðum er 28.300 tonn.