fimmtudagur, 4. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sigla á Rotterdam vegna Brexit

Guðsteinn Bjarnason
22. janúar 2021 kl. 15:00

Flutningafyrirtækin íslensku, Eimskip og Samskip, flytja nú ferskan fisk frekar til Rottedam en Immingham. MYND/Aðsend

Ferskur fiskur ekki lengur sendur í gegnum Immingham.

Íslenskir útflytjendur sjávarafurða hafa þurft að laga sig að breyttu ástandi í Bretlandi eftir Brexit. Vonast er til að hnökrarnir verði tímabundnir.

Töluverðar tafir og truflanir hafa verið á flutningi sjávarafurða frá Bretlandi til Evrópusambandsríkja eftir að Bretland gekk endanlega úr Evrópusambandinu um áramótin.

Íslensku fraktfélögin hafa ekki orðið varhluta af því og þurft að laga sig að breyttu ástandi, einkum hvað varðar sjávarafurðir sem hafa verið fluttar í gegnum Bretland áfram til ríkja Evrópusambandsins.

Ferskur fiskur hefur hingað til verið fluttur reglulega til Immingham í Bretlandi, verið umhlaðið þar á trukka og keyrt þaðan yfir til Frakklands.

Að sögn Björns Einarssonar, framkvæmdastjóra sölu- og viðskiptastýringar hjá Eimskip, eru viðskiptavinir hættir að „nota Bretland sem transithöfn fyrir meginland Evrópu vegna tafa í Ermasundsgöngum og eins vegna tafa á tollamálum á landamærum við Frakkland.“

Ferskur fiskur sé því að fara beint á Rotterdam núna í stað þess að fara í gegnum Bretland.

„Menn hafa því aðlagað sitt flutningsmunstur þannig að vara fer beint inná Rotterdam og þaðan inná á Evrópumarkaði í stað þess að fara í gegnum Bretland.“

Þetta hafi þó ekki haft „nein áhrif á afhendingar innan Bretlands sem allar hafa gengið með eðlilegum hætti og útflutningur verið með sterkur á Bretland.“

Tímabundið ástand

Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður Markaðs- og samskiptadeildar Samskips, segir of snemmt að draga ályktanir um framhaldið strax þegar aðeins tvær vikur eru búnar af árinu.

„Það var nokkuð fyrirséð að ákveðin töf gæti átt sér stað við breytingarnar. Það hefur verið eitthvað um plássleysi og tafir eins og ber að skilja undanfarið.“

Ástandið átti sér nokkuð langan aðdraganda og fram á síðustu stundu var óvissa um hvort samningar tækjust milli ESB og Bretland, eða hvernig þeir samningar yrðu.

„Við vorum búin að breyta okkar kerfi fyrir þó nokkru síðan til að geta haldið áfram að þjónusta okkar viðskiptavini sem eru að senda beint á fiskmarkaðina í Evrópu,“ segir Þórunn Inga.

Hún segir Samskip hafa lagt áherslu á að þetta ástand sé tímabundið. „Við höfum lagt hart að okkur við að koma til móts við afhendingartíma og halda uppi góðu þjónustustigi í góðu samstarfi við viðskiptavini okkar og samstarfsfélaga okkar í Bretlandi.“