laugardagur, 28. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síldarvertíðin á lokametrunum

26. október 2020 kl. 13:14

Mynd/Síldarvinnslan

Beitir NK kom með 790 tonn af síld til Neskaupstaðar. Ennþá mikið af síld að sjá á sömu slóðum og í allt haust.

Beitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 790 tonn af síld og er verið að vinna hana í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Sturla Þórðarson skipstjóri segir í viðtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar að síldin hafi fengist í Seyðisfjarðardýpinu.

„Við fengum þetta 46 mílur frá höfninni hérna og það var töluvert af síld að sjá. Þetta er sama stóra og fallega síldin, meðalþyngdin 390-400 grömm. Síldin heldur sig bara á sömu slóðum og hún hefur verið á í allt haust en nú er síldarvertíðin á lokametrunum hjá okkur,“ segir Sturla.

Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu, tekur undir með Sturlu og segir að síldin sé stór og falleg.

„Þessi síld getur í rauninni ekki verið betri og vinnsla á henni gengur afar vel. Hún er heilfryst og svo er hún einnig flökuð og fryst með roði og án roðs. Öll vertíðin hefur gengið eins og í sögu hjá okkur, en nú er að koma að lokum hennar. Þetta hefur verið algjör veisla, það verður ekki annað sagt,“ segir Jón Gunnar.