mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síldarvinnslan stefnir á skráningu í Kauphöll

4. febrúar 2021 kl. 11:40

Síldarvinnslan hf. var stofnuð árið 1957 og eru höfuðstöðvar félagsins í Neskaupstað. Hjá félaginu starfa um 360 manns. Mynd/Hlynur Sveinsson

Gangi allur undirbúningur eftir er stefnt að skráningu á fyrri helmingi þessa árs, segir forstjóri Síldarvinnslunnar.

Stjórn Síldarvinnslunnar hefur ákveðið að hefja undirbúning á skráningu hlutabréfa félagsins á aðalmarkað Nasdaq Iceland og hefur ráðið Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans til að hafa umsjón með verkefninu.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu fyrirtækisins.

Þar segir jafnframt að LEX lögmannsstofa og endurskoðendafyrirtækið EY muni sjá um gerð áreiðanleikakannana. Stjórn Síldarvinnslunnar telur félagið vel til þess fallið að vera skráð á markað hvað varðar stærð. Gangi allur undirbúningur eftir er stefnt að skráningu á fyrri helmingi þessa árs.

Í fréttinni segir:

„Síldarvinnslan er eitt af stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og er stærsti framleiðandi uppsjávarafurða á Íslandi. Fjárfestingar síðustu ára hafa miðað að því að styrkja félagið í bolfiskheimildum og fjölga þannig tekjustoðum félagsins. Félagið leggur áherslu á sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar, þar sem leitast er við að nota nýjustu tækni sem völ er á til veiða og vinnslu.

Markvisst hefur verið ráðist í fjárfestingar í skipum og vinnslum til þess að auka gæði, nýtingu og verðmæti sjávarafurða auk þess að draga úr kolefnisspori við veiðar og vinnslu.

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar hf, segir ákvörðunina tekna með það í huga að efla félagið og opna Síldarvinnsluna fyrir fjárfestum.

„Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og er Síldarvinnslan meðal stærstu og öflugustu sjávarútvegsfélaga landsins. Með skráningu félagsins á markað fjölgar tækifærum fjárfesta til að koma að sjávarútvegi. Íslenskur sjávarútvegur er framsækin atvinnugrein þar sem stöðugt er unnið að aukinni verðmætasköpun auðlindarinnar samhliða áskorunum í að draga úr kolefnisspori og umhverfisáhrifum greinarinnar,“ segir Gunnþór.

Síldarvinnslan hf. var stofnuð árið 1957 og eru höfuðstöðvar félagsins í Neskaupstað. Í dag er starfsemi Síldarvinnslunnar fjölþætt og hjá félaginu starfa um 360 manns.