föstudagur, 22. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síldin mjög vel haldin í ár

Guðsteinn Bjarnason
20. desember 2020 kl. 09:00

Áður fyrr var allt heilsaltað í tunnur en nú eru vöruflokkar Loðnuvinnslunnar um 15 talsins, ekki síst bitar og flök. Mynd/Loðnuvinnslan

Hoffellið fór tvo síldartúra og tekur væntanlega einn til í janúar.

Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði er eina fyrirtækið hér á landi sem saltar síld í tunnur núorðið. Íslenski síldarstofninn hefur verið lítill undanfarin ár en í haust hefur ástandið á síldinni verið óvenjugott.

„Við fórum tvo túra, og tökum væntanlega einn túr í janúar,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar. Ekki var mikið af síld að sjá þarna, hefur Friðrik eftir skipstjóranum, „en það gekk ágætlega að veiða hana þrátt fyrir það.“

Hoffellið, uppsjávarveiðiskip Loðnuvinnslunnar, kom með 295 tonn af síld til Fáskrúðsfjarðar 2. desember síðastliðinn og 614 tonn 22. nóvember. Alls hefur Hoffellið veitt um 1.340 tonn af síld innan lögsögunnar á þessari vertíð. Rétt eins og undanfarin ár veiddist síldin djúpt vestur af Reykjanesi.

„Það sem mér finnst áhugavert er að síldin sem var að veiðast þarna var mjög vel haldin og það var eiginlega engin sýking í henni. Hún var ekkert mjóslegin eða neitt svoleiðis,“ segir Friðrik.

„Við vorum að veiða 150 þúsund tonn á sínum tíma úr íslenska stofninum, en kvótinn núna er um 35 þúsund tonn. Vonandi fer stofninn bara að jafna sig. Við höfum ekki séð svona vel haldna og góða síld í nokkur ár, það var virkilega gott ástand á henni.“

Löng hefð

Loðnuvinnslan með langa hefð fyrir vinnslu á síld og hefur jafnt og þétt verið að byggja upp aðstöðu undanfarin ár. Eins og áður fór allur aflinn í söltun.

„Við gerum þetta allt í eldra húsnæði, en höfum alltaf uppfært okkur. Eins og þetta er orðið núna erum við raunverulega þeir einu í landinu sem erum að salta síld,“ segir Friðrik. „Jú, þetta fór allt í söltun. Þannig að við höldum í þessa hefð, sem er mjög skemmtileg vinnsla.“

Megnið af vörunni fer á Norðurlandamarkað, mest til Danmerkur og Svíþjóðar en stundum á Finnland. Svo fer eitthvað til Bandaríkjanna þar sem gyðingar eiga sér sterka hefð í síldinni.

Friðrik segir þessa markaði hafa haldið sér býsna vel.

„Þetta er samt alltaf viðkvæmt. Það er mjög mikil síldarhefð á Norðurlöndum, en unga fólkið er að vísu minna fyrir síld, alveg eins og á Íslandi og annars staðar. Það er miðaldra fólkið og eldra sem er vant því að nota síld.“

Hann segir íslensku síldina hafa þann kost að vera miklu fituminni en sú norsk-íslenska.

„Norsk-íslenska síldin geymist þess vegna miklu ver, íslenska síldin geymist betur.“

Ólík vinnubrögð

Vinnubrögðin eru gjörólík frá því sem þekktist hér áður fyrr.

„Í gamla daga mundu menn bara eftir því að hafa saltað heila síld í tunnur á Rússland, hún var rúnnsöltuð,“ segir Friðrik, en þá var síldin söltuð heil eins og hún kom upp úr sjónum.

„Hjá okkur eru þetta einhverjar fimmtán tegundir af vöru, meira og minna bitar og flök.“

Sýking sem hefur verið að hrjá stofninn undanfarinn áratug eða svo virðist á undanhaldi. Í tveggja og þriggja ára síld mat Hafrannsóknastofnun það svo að sýkingarhlutfall hafi verið innan við 5 prósent, en 13-35% í eldri síld.

Að sögn Hafró hefur stofninn farið minnkandi frá árinu 2006. Nýliðun síldar hafi þó verið yfir meðaltali árið 2020 eftir að hafa verið léleg á árunum 2014 til 2019. Þá hafi árgangurinn frá 2017 verið stór en hann kemur inn í veiðina næsta haust. Ráðgjöf yfirstandandi árs hljóðar upp á 35.490 tonn.

Íslenska síldin er með MSC-vottun um sjálfbærar veiðar sem kemur sér vel þegar norsk-íslenska síldin missir vottun vegna ofveiði úr deilistofninum.