laugardagur, 24. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjálfvirknin aukin til mikilla muna

Guðjón Guðmundsson
2. október 2020 kl. 11:59

Um 130 manns vinna í vinnslu Brims á Norðurgarði. Aðsend mynd

Endurnýjun botnfiskvinnslu Brims að ljúka

Endurnýjun botnfiskvinnslu Brims í Norðurgarði er langt komin og búist er við að síðustu verkþáttunum ljúki upp úr mánaðamótunum. Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri Brims, segir að með breytingunum aukist sjálfvirkni til muna í fiskiðjuverinu.

Framkvæmdir hófust seinni hlutann í apríl eða á sumardaginn 1sta. Nánast öllum búnaði, allt frá móttöku aflans til pökkunar, hefur verið skipt út. Komið er nýtt karakerfi fyrir innmötun í hráefniskæli og karaþvottavél auk þess sem settur var upp þjarkur sem losar fisk úr körum inn á hráefnisflokkara. Þá hafa verið settar upp þrjár nýjar snyrtilínur, þrjár vatnskurðarvélar frá Marel, tvær nýjar flökunarvélar frá Curio og þjarkar sem pakka ferskum flökum og flakabitum í kassa.

„Við klárum vonandi síðustu verkþættina fyrripart október mánaðar en það hefur verið vinnsla í gangi hjá okkur síðan 22. júlí. Við erum ekki komin á full afköst og það eru enn þá eftir hlutir sem snúa að virkni tækjabúnaðarins . Við höfum sett upp nýja vinnslulínu og nýja lausfrysta og raun má segja að um algjörlega nýja vinnslu sé að ræða,“ segir Ægir Páll.

Íslensk tækni og búnaður

Karfavinnslan hefur þó haldið sér eins og hún var áður. Unnin eru um það bil 100 tonn á viku. Karfinn er flakaður og fer á markað í Evrópu að mestu leyti.

Ægir Páll segir að sjálfvirkni verksmiðjunnar aukist verulega frá því sem var. Starfsmannafjöldinn er þó svipaður en hann segir að með endurnýjuninni sé auðvitað stefnt að meiri framleiðni með færri höndum á hvert unnið kíló. „Við aukum sjálfvirknina og hluti af störfunum breytast samhliða því.“

Megnið af nýja búnaðinum í verksmiðjunni er íslenskt framleiðsla sem byggir á íslensku hugviti. Þar má nefna vatnskurðarvélarnar og snyrtilínurnar frá Marel og vélarnar frá Curio. Með endurbótum á húsinu og stendur fjárfestingakostnaðurinn við endurbætt fiskiðjuver í um 20 milljónum evra, rúmum 3,2 milljörðum ÍSK.