fimmtudagur, 21. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjö milljarðar á sex árum til hafna og sjóvarna

3. desember 2020 kl. 10:46

Frá Ísafjarðarhöfn. MYND/HAG

Ýmis stór verkefni á teikniborði Vegagerðarinnar, þar á meðal á Ísafirði, Grundarfirði, Djúpavogi og Seyðisfirði.

Fjármagn til hafna og mikilvægra sjóvarna hefur verið aukið töluvert á síðustu árum og verður samtals nærri sjö milljarðar króna á árunum 2020 til 2025.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, greindi frá þessu á ársþingi Hafnasambandsins nýverið, að því er fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Mest verður framlagið á þessu ári, eða 1,6 milljarður, og á árinu 2021 þegar áætlað er að verja 1,2 milljarði í þessi mál. Eftir það verður framlagið tæpur milljarður á ári, sem er svipað og var árin 2018 og 2019.

Sigurður Ingi sagði ýmis stór verkefni vera á teikniborðinu. Sem dæmi nefndi hann nýjan hafnarkant við Sundabakka á Ísafirði, lengingu Norðurgarðs á Grundarfirði, endurbyggingu stálþils á Djúpavogi og endurbyggingu Bjólfsbakka á Seyðisfirði.

Þá standi til að bæta höfnina í Þorlákshöfn til að geta tekið á móti enn stærri og fjölbreyttari skipum, og í Njarðvík er stefnt að því að koma upp stórri þurrkví fyrir skipasmíði til að geta sinnt þar stærri skipum en nú er hægt hér á landi.

Þá sagði Sigurður Ingi að á Sauðárkróki sé vilji fyrir því að byggja upp nýja aðstöðu fyrir fiskvinnsluna á staðnum, sambærilega við það sem gert hefur verið á Dalvík sem auk þess nýtist fyrir vaxandi vöruflutninga og fjölbreyttari not.

Hann sagði Vegagerðina vinna að rannsóknum og undirbúningi þessara verkefna og annarra sem væru til þess fallin að styrkja atvinnulíf og leiða til atvinnusköpunar.