mánudagur, 2. ágúst 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjóræningjar reynast ósýnilegir

Svavar Hávarðsson
19. júlí 2021 kl. 08:00

Kínverskir sjóræningjar teknir í indónesískum sjó. Mynd/EPA

Ólöglegar og óábyrgar veiðar (IUU).

Það þykir afar líklegt að sjófarendur sem stunda ólöglegar veiðar hunsi með öllu lög og reglur hvað varðar notkun á sjálfvirku auðkenningarkerfi skipa (AIS). Kannski liggur það í hlutarins eðli en stjórnvöld í því landi sem skip er skráð á að fylgja notkunarreglum eftir.

Nýlega var settur í loftið sérstakur gagnagrunnur þar sem staðsetningar skipa sem hafa orðið uppvís af ólöglegum (IUU) eru birtar. Reyndar er ekki mikið að sjá því þegar á reyndi kom í ljós að skip þau sem þetta á við voru hvergi sýnileg þrátt fyrir alþjóðasamþykktir er skylda skip til að senda stöðugt út staðsetningu sína. Upphaflega var kerfinu komið á í öryggisskyni en hefur fengið víðtækara hlutverk síðan.

SeafoodSource greinir frá. Nýja verkfærið – IUU Vessel Tracker – var tekið í notkun um miðjan júní af Oceana, sjálfstæðri stofnun sem berst fyrir verndun hafsins og auðlinda þess. Þá kom í ljós að tvö af þeim 168 skipum sem hafa verið tilkynnt til yfirvalda fyrir lögbrot af einhverju tagi voru greinanleg í gegnum hið alþjóðlega vöktunarkerfi sem byggir á samskiptum skipa í gegnum gervihnött og allir sjófarendur þekkja vel.

Ekki er útilokað að einhver þessara skipa hafi skipt um heiti eða þau dulbúin að öðru leyti. Eins að einhver séu ekki lengur að veiðum. Líklegasta skýring þess að þau eru ósýnileg er hins vegar talin að einfaldlega er slökkt á sendum skipanna, þvert á lög og reglur.

Blinda augað

Bent er á að ef sannast að fjöldi skipa nýti ekki kerfið þá verði að taka tillit til þess hvað varðar öryggismál á heimshöfunum og reikna með slíku við fiskveiðistjórnun. Eins þurfi stjórnvöld og aðrir sem ábyrgð bera, að framfylgja þeim lögum sem í gildi eru með skilvirkari hætti.

Margt kemur til greina; sektir og leyfissviptingar. Löndunarbann á eigendur skipa og heilu útgerðarfélögin ef þess þarf.

Innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar er tekist á samning til að koma böndum á niðurgreiðslur ríkja til útgerða sem stunda veiðar utan lögsögu. Þannig á að reyna koma böndum á ólöglegar veiðar. Stefnt er að því að banna slíkar niðurgreiðslur en það hefur mætt mikilli mótstöðu enda hagsmunir einstakra ríkja gríðarlegir.