miðvikudagur, 8. desember 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Smá upplit eftir fjögurra mánaða törn

14. október 2021 kl. 12:10

Athafnasvæði Síldarvinnslunnar. Starfsemi fyrirtækisins er fjölþætt og þar starfa um 360 manns. Mynd/Þorgeir Baldursson

Starfsfólk fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur starfað nær samfellt á þrískiptum vöktum frá því um miðjan júní.

Starfsfólk fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar í Neskaupstað fær kærkomið helgarfrí eftir að hafa starfað nánast samfellt á þrískiptum vöktum frá því um miðjan júní. Vilhelm Þorsteinsson EA kom með 1.100 tonn af síld í í fyrrinótt og í morgun var verið að ljúka vinnslu úr honum. Strax að löndun lokinni var hafist handa við að þrífa fiskiðjuverið hátt og lágt og að því loknu fær starfsfólkið að njóta helgarfrísins.

Frá þessu segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Guðmundur Þ. Jónsson, skipstjóri á Vilhelm, segir þar að allt sé við það sama hvað síldveiðarnar varðar. Farmurinn fékkst í tveimur holum á sama stað og veiðin hefur farið fram á að undanförnu. Um sömu góðu síldina er að ræða, 370-390 gramma síld.

Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu, segir í viðtali við heimasíðuna að starfsfólkið eigi svo sannarlega skilið gott helgarfrí.

„Við höfum verið nánast stanslaust að frá því um miðjan júní þegar makrílvertíðin hófst. Öll vinnan hefur gengið frábærlega vel og staðreyndin er sú að við höfum ógeðslega gott starfsfólk. Starfsfólkið okkar er hins vegar farið að finna fyrir þreytu og það á skilið gott helgarfrí. Við hér í fiskiðjuverinu horfum fram á áframhaldandi annir. Það á eftir að ljúka við að vinna norsk-íslensku síldina, síðan tekur við vinnsla á íslenskri sumargotssíld og þá er hin risavaxna loðnuvertíð framundan. Það er eins gott að hafa yfir frábæru starfsfólki að ráða þegar horft er fram á þann annatíma sem framundan er. Það hefur heldur fækkað starfsfólki hjá okkur að undanförnu; íslenska skólafólkið hélt á brott fyrir nokkru og við höfum einnig verið að missa erlenda stúdenta sem starfað hafa hjá okkur. Þetta hefur þýtt að sumt starfsfólkið okkar hefur verið að taka aukavaktir og álagið er almennt mikið. Það er ekki hægt annað en vera sáttur við hvernig framleiðslan hefur gengið til þessa og ég veit að hún á eftir að ganga vel á komandi mánuðum,“ segir Jón Gunnar.