miðvikudagur, 8. desember 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Smærri bátar muni nýta raforku beint

Guðsteinn Bjarnason
22. nóvember 2021 kl. 08:00

Olíunotkun fiskiskipa var í hámarki um miðjan tíunda áratuginn. Mynd/Óskar P. Friðriksson

Orkustofnun rýnir í framtíðarorkugjafa íslenskra fiskiskipa.

Olían enn allsráðandi í íslenskum fiskiskipum en Orkustofnun spáir því að eftir aldarfjórðung verði notkun nýrra orkugjafa helmingur markaðarins.

Orkustofnun spáir því að í íslenskum fiskiskipum muni notkun nýrra orkugjafa verða eitt prósent markaðarins eftir 10 ár og 50% eftir 25 ár. „Gert er ráð fyrir því að smærri bátar munu nýta raforku beint og að rafbátar verði orðnir 1% markaðarins eftir 2 ár og 50% eftir 35 ár.“

Þetta kemur fram í Orkuspá sem Orkustofnun birti í haust. Í spánni er gert ráð fyrir því að orkuþörf skipanna sé sú sama hvort sem notuð er olía eða aðrir orkugjafar, „með þeirri undantekningu að nýtni rafmótora er áætluð 2,5 sinnum nýtni hefðbundinna skipavéla.“

Stofnunin segir orkunotkun vera mjög mismunandi eftir veiðiaðferðum en annars hafi fjölmargir þættir hafa áhrif á olíunotkun fiskiskipa: „Ástand og veiðanleiki fiskistofna skipta miklu máli. Sem dæmi jókst þorskafli á sóknareiningu verulega á síðasta áratug, bæði vegna öflugri þorskstofns og bættrar veiðitækni.“

Olíunotkun fiskiskipa hafi verið í hámarki um miðjan tíunda áratuginn, en farið minnkandi samhliða minni fiskafla og auknum afla á sóknareiningu. Mest hafi notkunin verið árið 1996 vegna veiða á fjarlægum miðum en þær hafi dregist mikið saman undanfarin ár og séu nú hverfandi.

Aukin vitund

Fiskiskipafloti landsmanna er sagður einn stærsti notandi eldsneytis hér á landi, en aukin vitund um afleiðingar loftslagsbreytinga og skaðsemi olíunotkunar hafi þrýst mjög á um orkuskipti í eldsneytisfrekum geirum svo sem fiskveiðum.

„Í dag er olía allsráðandi í fiskiskipum en gert er ráð fyrir að það muni taka breytingum á næstu árum og áratugum. Lítilræði af lífdísilolíu, framleiddri hérlendis, hefur verið notuð á innlend fiskiskip en notkunin er mjög lítil miðað við hefðbundna olíunotkun.“

Stofnunin segir miklar sveiflur hafa verið í kaupum erlendra fiskiskipa á olíu á undanförnum árum. Hugsanlegt sé þó „að einhver þessara skipa séu í eigu íslenskra útgerða en skipin skráð erlendis og þá gæti verið ósamræmi milli aflaskráningar og eldsneytisskráningar. Mögulegt er líka að hluti af þeim olíukaupum sem fram koma séu í raun kaup skemmtiferðaskipa og salan ekki skráð í réttan notkunarflokk.“

Fjölmargar aðrar ástæður eru sagðar geta verið fyrir breytingum í olíukaupum erlendra fiskiskipa hérlendis fyrir utan mögulega ranga söluskráningu. „Til dæmis getur olíuverð haft áhrif á það hvort erlend fiskiskip kaupi olíu hérlendis eða í öðrum erlendum höfnum auk þess sem breytingar í veiðum og kaupum fiskivinnslustöðva á hráefni geta leitt til breytinga í eldsneytisnotkun og -kaupum.“

Miðað sé við að olíukaup erlendra fiskiskipa verði um 40 þúsund tonn á ári.