miðvikudagur, 12. maí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Smíði nýrrar verksmiðju að hefjast

28. apríl 2021 kl. 12:57

Samningurinn var undirritaður af Arnari Bjarna Eiríkssyni forstjóra Landstólpa og Gunnþóri B. Ingvasyni forstjóra Síldarvinnslunnar. Mynd/Síldarvinnslan

Ráðgert er að stækka verksmiðjuna úr 1.400 tonnum í 2.380 tonn og að auki er áformað að auka afköst hrognavinnslunnar um helming.

Fyrir dyrum standa miklar framkvæmdir við fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Ráðgert er að stækka verksmiðjuna úr 1.400 tonnum í 2.380 tonn og að auki er áformað að auka afköst hrognavinnslunnar um helming. Eftir stækkunina verður í fiskimjölsverksmiðjunni sérstök eining eða lítil verksmiðja sem hentar sérstaklega á þeim tímum þegar einungis er unninn afskurður frá manneldisvinnslunni.

Síldarvinnslan segir frá í frétt á heimasíðu sinni.

Nú þegar eru hafnar undirbúningsframkvæmdir á verksmiðjusvæðinu og á miðvikudag var undirritaður samningur við Landstólpa ehf. um kaup og uppsetningu á stálgrindahúsum vegna stækkunarinnar. Annars vegar er um að ræða 2.000 fermetra verksmiðjuhús og hins vegar löndunarhús vegna hrognavinnslunnar sem stækkað verður um 300 fermetra. Samkvæmt samningnum skal lokið við að reisa húsin 1. nóvember næstkomandi.

Ljóst er að miklar framkvæmdir verða á verksmiðjusvæðinu í sumar. Framkvæmdir við verksmiðjuna verða í tveimur áföngum. Í fyrri áfanganum verður húsið reist og komið upp litlu verksmiðjueinunginni, en í síðari áfanganum verður komið upp búnaði sem eykur afköstin.  

Hin auknu afköst munu gera verksmiðjunni kleift að vinna stóra farma á tiltölulega skömmum tíma og litla verksmiðjan verður með sveigjanlegum afköstum þannig að unnt verður að vinna allt hráefni sem ferskast. Þá mun orkunýting batna mikið með þessu fyrirkomulagi.