mánudagur, 2. ágúst 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sólarhringurinn að gefa 35 tonn

6. maí 2021 kl. 11:40

Akurey AK. Mynd/Brim

Akurey AK að fá góða veiði af þorski, gullkarfa og ufsa.

Ísfisktogari Brims, Akurey AK, var í gær að veiðum á Eldeyjarbankanum. Skipstjórinn, Eiríkur Jónsson, sagðist þá vonast til að hægt yrði að bæta við nokkrum tonnum af þorski áður en siglt yrði til Reyjavíkur, en þar verður afla landað í dag.

„Aflabrögðin hafa verið með ágætum síðustu vikurnar. Fyrir daginn í dag vorum við komnir með 110 til 115 tonna afla eftir rúma þrjá sólarhringa á veiðum. Það eru góð 35 tonn á dag,” segir Eiríkur í viðtali á heimasíðu Brims en hann greinir sömuleiðis frá því að aflinn sé jöfnum höndum þorskur, gullkarfi og ufsi.

„Við byrjuðum túrinn á Eldeyjarbanka en færðum okkur svo yfir á Selvogsbankann. Aflinn var ágætur á báðum stöðum. Ég ákvað að enda túrinn á Eldeyjarbankanum en þar var mokveiði á þorski fyrir tveimur til þremur dögum síðan,” segir Eiríkur en hann upplýsir að fiskurinn á slóðinni sé vel haldinn og hið besta hráefni.

„Þorskurinn er t.a.m. mjög góður. Meðalvigtin er fjögur til fimm kíló. Hins vegar hef ég heyrt að mönnum finnist ufsinn vera í smærri kantinum. Það er þó ekki okkar reynsla,” segir Eiríkur.