sunnudagur, 25. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Spáir þungum vetri en bjartri framtíð

Svavar Hávarðsson
29. september 2020 kl. 09:00

Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood International

Lægra afurðaverð, sölutregða og birgðasöfnun fyrirsjáanleg í vetur

Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood International, gerði óvissu og þær ógnir sem steðja að sölu- og markaðsmálum íslensks sjávarútvegs að umtalsefni í erindi sínu á Sjávarútvegsdeginum 2020 sem haldinn var fyrir skemmstu. Þegar hefur heimsfaraldurinn valdið fyrirtækjum erfiðleikum og skaða en það versta er kannski enn eftir.

Bjarni leit til baka til ársins í fyrra og vitnaði til orða seðlabankastjóra um að útgerðin í landinu skyldi búa sig undir viðvarandi sterka krónu. Ástæðan væri einkum tvennt; sterkt lífeyrissjóðakerfi og þjóðin því útflytjandi á fjármagni og hins vegar áskrift að sterkum jákvæðum viðskiptajöfnuði í gegnum ferðaþjónustuna.

Ísköld staðreynd

„Nú aðeins ári síðar hefur þessi eftirlitsaðili fjármálakerfisins þrýst lífeyrissjóðakerfinu í þá stöðu að fara ekki út með krónur í samfellt sex mánuði; hann hefur jafnframt nýtt 40 milljarða af gjaldeyrisforðanum til að stuðla að stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og boðaði núna nýverið að hann myndi nota aðra 40 milljarða til viðbótar til áramóta til þess sama. Á sama tíma hefur krónan veikst, gagnvart okkar helstu viðskiptamynt um sautján prósent,“ sagði Bjarni og vísaði til þess að þetta væri einungis ein birtingarmynd þeirra erfiðleika sem Covid-19 faraldurinn hefur valdið hér á landi. Fjölmargt annað kæmi til, eins og tíundað er í fréttum daglega en hann sagði sjaldan rætt þar um áhrifin á söluverð íslenskra sjávarafurða.

„Hin ískalda staðreynd er sú að verð hefur lækkað í erlendri mynt í fjóra mánuði í röð. Þær staðreyndir sem raktar voru hér áðan, og var grunnurinn að góðu ári 2019 hafa verið þurrkaðar út,“ sagði Bjarni en tók fram að sjávarútvegurinn þyrfti ekki að kvarta þegar staða ferðaþjónustunnar væri höfð til samanburðar. En langt væri frá því að sjávarútvegurinn gæti prísað sig sælan.

„Sami raunveruleiki blasir því við okkur að mörgu leiti því mikið af okkar afurðum eru jú seldar í erlendan ferðageira.“

Hann sagði sölu mismunandi eftir dreifileiðum. Smásala hafi gengið vel og vaxið um allt að 10% innan mismunandi markaða. En heildsala til hótel-, veitingahúsa-, og annarra fyrirtækja sem sinna matsölu hafi tekið dýfu. Í vor var um allt að 80% samdráttur í tekjum á mikilvægum mörkuðum ISI, enda hafi mörg af mikilvægustu viðskiptalöndum fyrirtækisins í Evrópu fengið þung högg vegna heimsfaraldursins.

„Hömlur á samkomum og útgöngutakmarkanir hafa gert það að verkum að rekstur veitingastaða hefur átt undir högg að sækja alls staðar í heiminum. Það eru vond tíðindi fyrir útflutning á íslensku sjávarfangi því við höfum í langan tíma lagt áherslu á veitingageirann því hann greiðir almennt hærra verð en smásölumarkaðurinn,“ sagði Bjarni sem bætti við að vissulega séu veitingahús mörg og misjöfn. Matarsala í gegnum bílalúgur og heimsendingaþjónusta séu hvað best sett en fjölskyldustaðir muni væntanlega ekki ná vopnum sínum fyrr en seint á næsta ári eða árið 2022. Dýrari veitingastaðir hafi orðið verst úti. Eins og útlitið er núna mun að öllum líkindum taka nokkur ár að snúa stöðunni við á þeim bænum.

Verulegur samdráttur

Þá sagði Bjarni að fluggeirinn væri kapítuli út af fyrir sig, enda reikni flugfélögin ekki með að öðru en verulegur samdráttur verði í viðskiptaferðalögum. Þá hafi opinberi geirinn séð að rafrænir fundir séu góð leið til samskipta og sé matarhola til sparnaðar. Hlaðborð veitingahúsa eru víða einfaldlega bönnuð og eiga eftir að sjá langan tíma líða þangað til slíkt borðhald verður aftur það sem áður var. Það hefur t.d. alvarlegar afleiðingar fyrir sölu á ufsa sem mikið er notaður á þeim markaði.

„Stærri og fínni veitingastaðir, sem hafa verið meðal allra verðmætustu viðskiptavina íslenska sjávarútvegsins, hafa því verið með vindinn í fangið í umtalsverðan tíma núna og veturinn framundan verður þeim efalaust erfiður og sum þeirra munu ekki bera barr sitt,“ sagði Bjarni og spáði því Sjávarútvegsdagurinn að ári liðnu myndi ekki verða haldinn með jafn jákvæðum formerkjum og sá sem nú er nýlega að baki.

„Atburðarásin í heiminum verður þá búin að hafa í för með sér lægra afurðaverð, sölutregðu og birgðasöfnun. Auk þess sem geymt verður í sjónum. Allt felur þetta í sér tap í sölu, aukinn kostnað eða aukna áhættu.“

Aðlögunarhæfni er styrkleiki

Á jákvæðari nótu sló Bjarni þó þegar hann sagði íslenskan sjávarútveg löngum hafa verið góðan í að laga sig að breyttum aðstæðum. Það sagði hann hafa verið einn helsta styrkleika greinarinnar þegar litið er til baka.

„Það er því ástæðulaust að kvíða framtíðinni þó maður viti að veturinn framundan verður erfiður. Það er augljóst að Covid-faraldurinn mun kosta okkur mikið til skamms tíma. Sömuleiðis er ljóst að ýmsir okkar viðskiptavina munu ekki lifa þessa niðursveiflu af og sjáum við þess þegar merki með smærri aðila á sumum af okkar markaðssvæðum, því miður. Æ erfiðara reynist jafnframt að fá greiðslufallstryggingar í þeim mæli sem verið hefur sem gerir öllum útflytjendum erfiðara fyrir,“ sagði Bjarni en sagði óljóst hversu mikill skaði myndi hljótast af þeim óvæntu þrengingum sem núna eru staðreynd. Öll fyrirtæki, bæði þau sem veiða villtan fisk og hin sem ala sinn fisk, myndu finna fyrir þeim.

Fiskveiðistjórnunarkerfið í forgrunni

Bjarni sagði í erindi sínu að það væri afar mikilvægt að þeir þættir í íslenskum sjávarútvegi sem eru undir okkar stjórn, og hægt er að hafa trygga og trausta, séu það í raun. Fiskveiðistjórnunarkerfið sé þar í forgrunni en umræðan bendi til þess, enn og aftur, að lítil sátt virðist í augsýn um kerfið.

„Stöðugleiki á þeim vettvangi er helsti hornsteinn þess að hægt verði að komast í gegnum þessar þrengingar. Fyrirsjáanleiki er lykillinn að allri ákvarðanatöku og þar með fjárfestingum. Sveigjanleikinn sem útgerðarmynstur, tilflutningur á milli tegunda, tilflutningur á milli markaða og mismunandi vinnsla skapar grunninn að því að komast í gegnum þessa tímabundnu erfiðleika og halda áfram að byggja upp velsæld, sagði Bjarni sem sagði útlitið til lengri tíma íslenskum sjávarútvegi hagfellt. Spurn eftir villtu sjávarfangi hafi farið vaxandi og mun fara vaxandi, að hans sögn. Framboðið sé stöðugt eða farið heldur minnkandi með árunum. Það sé hins vegar hlutverk þeirra sem starfa í greininni að tryggja verðmætasköpun til framtíðar. Það verði gert með aukinni framleiðni, fjárfestingum í framleiðslutækjum eða markaðsstarfi, góðri umgengni við auðlindina og útsjónarsemi við veiðar, vinnslu, markaðsmál og sölu,“ sagði Bjarni.