mánudagur, 2. ágúst 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stefnir í 2.300 tonn á árinu

Guðjón Guðmundsson
20. nóvember 2020 kl. 09:00

Rafn Arnarson skipstjóri. Mynd/Þorgeir Baldursson

Sandfell SU, bátur Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði gerir það gott.

Línubáturinn Sandfell SU hefur gert það gott það sem af er þessu ári. Aflinn kominn vel yfir 2.000 tonn og aflaverðmætin eru á sjötta hundrað milljónir króna. Rafn Arnarson skipstjóri býst við að heildaraflinn á árinu verði svipaður og undanfarin ár, eða í kringum 2.300 tonn.

„Kakan var góð. Við höfum fengið þær nokkrar en ég þori ekki að fara með það hve margar þær eru orðnar,“ segir Rafn, en sá siður er hjá Loðnuvinnslunni í Fáskrúðsfirði að færa áhöfnum gómsætar tertur við stóra áfanga. Tvær áhafnir eru á Sandfelli og fjórir í hvorri áhöfn. Rafn segir að þakka megi þennan ágæta árangur góðri og samhentri áhöfn.

Sækir í síld og síli

Rafn segir að veiðarnar hafi gengið vel það sem á þessu ári ef nóvember er undanskilinn. Verulega góður gangur hafi verið fyrstu mánuði ársins, hina hefðbundnu vertíðarmánuði og veiðst jafnt og vel alla aðra mánuði ársins nema hvað rólegt hafi verið yfir þessu í nóvember.

„Það er búið að vera eitthvað tregt en þar gæti spilað inn í talsverð síld á miðunum og síli líka. Sá guli er ekki mikið að bíta á krókana ef hann hefur úr einhverju öðru að moða. Hann vill frekar eitthvað lifandi og spriklandi.“

Sandfellið hefur verið við veiðar víðsvegar út af Austurlandi, t.a.m. út af Langanesi, á Vopnafjarðargrunni, út af Norðfirði og víðar. Núna er það út af Stöðvarfirði en Rafn segir að það sé bara kropp þessa dagana.

„En það fer að færast líf í þetta. Það hefur verið allur gangur á því hvernig fiskur þetta er en hann er dálítið blandaður stærðarlega séð. Verðin eru vissulega há á mörkuðunum núna en við erum að fá önnur verð en bjóðast þar. En verðlagsstofuverðið hefur hækkað í takt við markaðina. Afkoman er því ágæt og við kvörtum ekki,“ segir Rafn.

Áður hjá Stakkavík

Rafn á bátnum frá því hann var sjósettur árið 2014. Báturinn var þá í eigu Stakkavíkur í Grindavík og hét Óli á Stað. Þetta er smábátur af stærstu gerð, 30 brúttótonna og 15 metra langur smíðaður af Seig á Akureyri. Loðnuvinnslan keypti hann árið 2016 og fylgdi áhöfn Rafns skipinu. Rafn hafði þá verið í sextán ár hjá Stakkavík. Tveir úr áhöfninni, Rafn og annar, eru Grindvíkingar og hinar tveir eru frá Keflavík og Reykjavík. Tvær áhafnir eru á skipinu og róa tvær vikur í senn.

Beitingarvél er í Sandfelli og krókarnir eru 19 þúsund talsins. Rafn segir að 95% af allri beitu sé síld. Allur gangur sé þó á veiðimynstrinu. Stundum er bara farið út og inn aftur ef veðrið er með þeim hætti. Þá er landað og haldið á sjó strax aftur. Það væsi enda ekki um mannskapinn í Sandfellinu og mönnum þyki gott að leggja sig úti á sjó eftir að línan hefur verið lögð. Allur gangur er líka á því hve lengi línan er látin liggja. Stundum sé bara lagt og keyrt í endann og byrjað að draga.

Frá því Loðnuvinnslan hóf að gera út Sandfellið árið 2016 hefur það fiskað u.þ.b. 2.300-2.400 tonn á ári. Nú er árið ekki liðið og býst Rafn við því að aflinn verði í kringum 2.300 tonn þegar upp verður staðið. Það eru góð afköst á ekki stærri bát.