

Fiskeldi skilaði ríflega 35 milljörðum króna í útflutningstekjur á síðasta ári sem samsvarar nærri þremur prósentum af heildar útflutningstekjum þjóðarbúsins í fyrra. Útlit er fyrir talsverðan vöxt fiskeldis hérlendis sem á heimsvísu á komandi árum.
Svo segir í nýrri greiningu Íslandsbanka á fiskeldi hér á landi.
Um 90% af framleiddu magn var í laxeldi en bleikja og regnbogasilungur mynda uppistöðuna í hinum 10 prósentunum.
„Eldislaxinn hefur á nokkrum árum tekið fram úr öðrum helstu nytjafisktegundum í útflutningsverðmæti og væntanlega skilaði einungis þorskur meiri tekjum á síðasta ári. Það gæti hins vegar breyst í ár þar sem loðnan mun líkast til berjast um annað sætið við eldislaxinn í kjölfar stærstu loðnuvertíðar í áratug,“ segir þar og bætt við að horfur eru á myndarlegum vexti í fiskeldi hérlendis í ár og næstu ár.
Lauslega áætlað gætu útflutningstekjur frá fiskeldi orðið í kring um 45 milljarðar króna í ár og slagað hátt í 60 milljarða króna árið 2024, gangi spá greiningar Íslandsbanka eftir.
Því er spáð að fiskeldi muni aukast um ríflega fimmtung á yfirstandandi áratug og nema ríflega 103 milljónum tonna árið 2030 samanborið við 84 milljón tonn árið 2020, segir í greiningunni. Aftur á móti er þar einungis spáð 5% vexti í fiskafla til manneldis á sama tíma.
„Þróunin hér á landi er því í takti við alþjóðlega þróun og mun hlutur fiskeldis í útflutningstekjum Íslands væntanlega áfram vaxa jafnt og þétt út áratuginn.“