laugardagur, 24. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stór kolmunni að veiðast

8. október 2020 kl. 11:41

Bjarni Ólafsson kemur til löndunar í Neskaupstað. Mynd/Síldarvinnslan

Bjarni Ólafsson AK er einskipa á kolmunnaveiðum þessa dagana og landar í Neskaupstað.

Bjarni Ólafsson AK hefur að undanförnu verið að kolmunnaveiðum austur af landinu og kom hann sl. nótt til Neskaupstaðar með 1.770 tonn. 

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra um veiðarnar. 

„Þetta hefur gengið tiltölulega vel. Um er að ræða stóran kolmunna, en í þessum túr var aflinn síldarblandaður. Við fengum töluvert af síld í einu holinu. Veiðarnar fóru fram út af Héraðsflóa og í Seyðisfjarðardýpi alveg út við kant. Það voru 56 mílur í Norðfjarðarhorn þegar við hættum veiðum.  Aflinn fékkst í sjö holum. Stærsta holið gaf um 300 tonn og hið minnsta um 200. Kolmunninn sést varla á mæli, hann sést einungis sem afar dauft ryk. Einungis er veitt á daginn en á nóttunni dreifir fiskurinn sér og fer upp í sjó og þá þýðir ekkert að eiga við hann. Auðvitað er mikilvægt að kolmunni veiðist í lögsögunni og það er þægilegt að eiga við þetta í blíðuveðri eins og verið hefur,“ segir Runólfur.