mánudagur, 2. ágúst 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stórt sem smátt skal á skrá yfirvalda

8. janúar 2021 kl. 09:00

Kröfur fyrir innfluttan fisk eru afar strangar í Kína vegna farsóttarinnar. Aðsend mynd

Útflutningur íslenskra sjávarafurða til Kína.

Yfirvöld í Kína tilkynntu Matvælastofnun nokkru fyrir jól að nýtt heilbrigðisvottorð yrði tekið í notkun fyrir fiskafurðir til Kína á árinu 2021. Auknar kröfur vegna COVID -19 farsóttarinnar eru þar uppi á borðum. Sömu kröfur hafa verið kynntar fyrir ýmsum öðrum löndum.

Frá þessu segir Matvælastofnun sem hefur undanfarið haft samráð við kínversk yfirvöld varðandi þessar nýju kröfur og nýja heilbrigðisvottorðið og fengist hafa skýringar á ýmsu sem var óljóst. Upphaflega stóð til að innleiðing nýs vottorðs tæki gildi 1. janúar en var frestað. Matvælastofnun sendi kínverskum yfirvöldum tillögu að breytingu á nýju heilbrigðisvottorði sem nú bíður samþykktar. Eldra vottorð verður áfram í gildi þar til samþykki kínverskra yfirvalda liggur fyrir.

Allt skal uppgefið

Í því heilbrigðisvottorði sem kínversk yfirvöld höfðu dregið upp skal tilgreina öll veiðiskip/vinnsluskip, vinnslustöðvar og sjálfstæðar frystigeymslur svo rekjanleiki afurðanna sé tryggður alla framleiðslu- og flutningslínuna. Öll skip,  vinnslustöðvar og sjálfstæðar frystigeymslur þurfa að vera skráð á opinberan lista hjá yfirvöldum í Kína

Þá eiga allar starfseiningar í framleiðsluferlinu að hafa innleitt aðgerðir til að fyrirbyggja COVID-19 smit á öllum stigum í framleiðslu- og flutningslínunni byggðar á leiðbeiningum Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO)  og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO).

Ekki má tilgreina starfseiningar í heilbrigðisvottorðinu nema þær hafi birst á opinberum lista kínverskra yfirvalda vegna þess að ekki er heimilt að flytja til Kína afurðir sem unnar eru úr afla skipa sem ekki eru skráð á opinberan lista í Kína.

Sýnataka í Kína

Yfirvöld í Kína hafa undanfarnar vikur tekið sýni til rannsókna á kórónaveirunni í fiskafurðum og umbúðum þeirra sem fluttar eru til Kína.  Markmiðið er að draga úr hættu á að veiran berist með innfluttum afurðum til Kína.

Ef jákvætt sýni greinist er gripið til sérstakra aðgerða í Kína. Í fyrstu tvö skiptin sem jákvætt sýni greinist er sett innflutningsbann á afurðir viðkomandi framleiðanda í eina viku. Banninu er sjálfkrafa aflétt að viku liðinni. En ef jákvætt sýni greinist í afurðum eða umbúðum þrisvar sinnum eða oftar frá sama framleiðanda er sett innflutningsbann á viðkomandi framleiðanda í fjórar vikur. Banninu er aflétt hverju sinni að fjórum vikum liðnum frá því það er sett á.

Matvælastofnun greinir frá því að til þessa hefur ekkert jákvætt sýni af íslenskum fiskafurðum greinst við innflutningseftirlit í Kína.