miðvikudagur, 28. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sumt í frumvarpinu vekur kátínu

Guðsteinn Bjarnason
25. september 2020 kl. 14:00

Breytingar boðaðar á atvinnu- og byggðakvótum.

Sextíu athugasemdir bárust í Samráðsgátt stjórnvalda og er þar að finna margvíslega gagnrýni á fyrirhugaðar breytingar á 5,3% pottunum.

Í lok síðustu viku rann út umsagnarfrestur í Samráðsgátt stjórnvalda vegna frumvarps til laga um breytingar á byggðapottunum svonefndu, þeim 5,3% aflaheimilda sem tekin eru frá til sérstakra atvinnu- og byggðaráðstafana.

Alls bárust 60 athugasemdir, þar á meðal frá fjölmörgum smábátasjómönnum, nokkrum bæjarstjórum og frá Landssambandi smábátasjómanna. Hér verður stiklað á nokkrum atriðum sem þar koma fram, en margt er þar harðlega gagnrýnt.

Í frumvarpinu eru gerðar ýmsar breytingar á úthlutun atvinnu- og byggðakvótanna en í greinargerð segir að skapa eigi „skýrari grundvöll fyrir meðferð og ráðstöfun“ þeirra. Einnig eigi að tryggja betur „að nýting umræddra aflaheimilda stuðli að byggðafestu og nýliðun í greininni og jafnframt að verðmæti þeirra aflaheimilda sem ríkið hefur forræði yfir verði sem mest."

Breytingar eru gerðar á öllum meginþáttum atvinnu- og byggðapottanna, nefnilega almenna og sérstaka byggðakvótanum, strandveiðum, línuívilnun og rækju- og skelbótum.

Meðal annars eru hlutföll þessara ráðstafana innbyrðis fest í sessi til sex ára þannig að í byggðakvótana fari 44,64%, í strandveiðar, línuívilnun og veiðar í tengslum við ferðaþjónustu fari samtals 47,26% og í varasjóð vegna óvæntra áfalla fari 8,10%.

Margvísleg gagnrýni er sett fram í þeim umsögnum sem bárust í Samráðsgátt. Þar á meðal segir Akureyrarbær skorta á „að mælikvarðar um hvort markmiðum hafi verið náð séu skilgreindir í frumvarpinu.“ Mælikvarðar eru sagðir bæði „óljósir og huglægir.“

Fastsetning byggðakvóta

Landssamband smábátaeigenda (LS) „mótmælir harðlega hlutdeildaskiptingu aflamagns, sem ætlað er til atvinnu- og byggðakvóta og þar meðtalið að fastsetja prósentur til 6 ára. Slíkt leiðir til stöðnunar og værukærðar og hamlar allri framþróun þeirra þátta sem hér eru undir.“

LS bendir á það, mótmælum þessum til rökstuðnings, „hversu kvik fiskveiðistjórnunin er og reynsla undanfarinna ára hefur sýnt að milljóna tjón getur hlotist á stuttum tíma þegar ekkert svigrúm er í lögum til að bregðast við.“

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjabæ, segir sveitarfélagið fagna „þeim fyrirsjáanleika sem breytingarnar geta haft í för með sér. Neikvæði þátturinn við fyrirsjáanleikann er sá að erfitt getur reynst að bregðast við óvæntum áföllum. Það er verið að negla niður ráðstöfun til sex ára. Svigrúmið er lítið.“

„Erfitt er að sjá að þær breytingar sem lagðar eru til tengdar 5,3% veiðiheimildunum eiga eftir að koma aðilum í Sveitarfélaginu Ölfus til góða,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Þorlákshafnar og fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. „Stærsta og veigamesta breytingin er sú að almennur byggðakvóti mun nánast þurrkast út í Þorlákshöfn.“

Magnús Jónsson, formaður Drangeyjar, smábátafélags Skagafjarðar, segir félag sitt vilja „vekja sérstaka athygli á þeim mikla eðlismun sem er á strandveiðum annars vegar og veiðum úr öllum öðrum atvinnu- og byggðakvótapottum hins vegar.“

Magnús segir „fátt mikilvægara í öflugri byggðastefnu en útgerð smærri báta. Byggðakvóta ætti því eingöngu að vera úthlutað til báta undir 50 sml. að stærð. Togaraútgerðir með þúsundir tonna aflaheimildir styrkja ekki með neinum hætti byggðarlög með fárra tonna viðbótaraflaheimildum í gegnum byggðakvóta.“

LS telur sömuleiðis rétt að byggðakvóti verði skilyrtur til sveitarfélaga og rétt til nýtingar byggðakvóta hafi einungis „útgerðir dagróðrabáta sem skráðar eru í viðkomandi byggðarlagi og bátar í þeirra eigu sem skráðir eru með heimahöfn í byggðarlaginu og stunda dagróðra þaðan“.

LS segist hafa skilning á að samsetning byggðakvóta geti „verið með þeim hætti að þar séu tegundir sem varla sjást á veiðislóð dagróðrabáta.“ Hægur vandi væri að „gera undantekningu á og úthluta til stærri skipa innan viðkomandi byggðarlags“ ef ekki tekst að skipta þeim tegundum fyrir aflaheimildir sem dagróðrabátar geta nýtt.

LS segir það annars vekja athygli „hversu litlu skuli vera breytt varðandi reglur um almennan byggðakvóta og sértækan byggðakvóta,“ og ennfremur segir LS að nokkur atriði frumvarpsins veki „jafnvel kátínu við lestur vegna flókinna afbrigða sem ætlað er að vera í samningum.“

Strandveiðar aftur til fyrra horfs

Sem kunnugt er þurfti að stöðva strandveiðar í sumar áður en veiðitíma lauk vegna þess að aflaheimildir kláruðust fyrr en vonir stóðu til.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að í ljósi þessarar reynslu og í ljósi jafnræðis þyki nú „rétt að færa fyrirkomulagið í fyrra horf".

LS furðar sig á þessu, „að sjávarútvegsráðherra skuli nú rúmum tveimur árum eftir að Alþingi ákvað að breyta yfir í 48 daga kerfi leggja til að snúið verði aftur til fornra tíma. Til veiðikerfis sem heyrir sögunni til. Veiðikerfis sem samkomulag var um að væri barn síns tíma.“

„Það er mín skoðun að með þessu frumvarpi sé verið að veikja strandveiðarnar,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS, í stuttu símaspjalli við Fiskifréttir.

„Það er almennt sátt um að hafa veiðikerfið þannig að það sé 48 dagar, en það verður þá að vera tryggt að það gangi eftir.“

Línuívilnun fari í byggðakvóta

Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að ónýttri línuívilnun verði úthlutað sem almennum byggðakvóta „í samræmi við hlutdeild einstakra byggðarlaga á undangengnum árum.“

Í greinargerðinni er bent á að „með aukinni tæknivæðingu hafi hagkvæmni þess að beita eða stokka línu í landi farið minnkandi og línuívilnun hefur ekki verið nýtt að fullu."

Þessar breytingar eru sagðar koma verst niður á þeim byggðarlögum þar sem löndum línuívilnunar hefur verið mest, en línuívilnun sé þó „enn mikilvæg á mörgum stöðum og óráðlegt að leggja hana af að svo stöddu."

LS mótmælir því harðlega „að ónýttur afli í línuívilnun leggist við byggðakvóta og þar með að færa þær frá útgerð dagróðrabáta og setja þær inn í aflahlutdeildakerfi þar sem nýting þeirra með veiðum er afar ótrygg eins og fram hefur komið.“

Þess í stað ítrekar LS ítrekar fyrri tillögur sínar um að línuívilnun verði efld þannig að hún verði „aukin í 30% og gildi fyrir alla dagróðrabáta minni en 30 bróttótonn enda skuli hámarkslengd þeirra vera innan við 15 metra. Ívilnunin verði að fullu hjá bátum þar sem línan er beitt og stokkuð upp í landi, skerðist um þriðjung hjá aðilum sem stokka upp línu eða greiða af rekkum í landi og verði þriðjungur að fullri ívilnun hjá bátum með beitningavél.“

Bárður Guðmundsson, formaður Samtaka smærri útgerða, kemur einnig inn á þetta í sinni umsögn um frumvarpið og segir að vissulega hafi „hagkvæmni þess að beita eða stokka línu í landi [...] farið minnkandi. Einnig hafi „aðstæður í hafi breyst, því hefur línuívilnun ekki verið nýtt að fullu undanfarin ár.“

Hann segir að krókaaflamarksbátum sé „ekki heimilt að nota önnur og hagkvæmari veiðarfæri en línu og handfæri og teljum við því eðlilegast að heimila öllum krókaaflamarksbátum sem stunda dagróðra með línu að nýta línuívilnun og styðja þannig við línuútgerð í landinu.“

Varasjóður

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að um átta prósent af 5,3% pottunum verði sett í varasjóð „til að mæta óvæntum áföllum sem haft geta neikvæð byggðaáhrif.“ Jafnframt verði skel- og rækjubætur aflagðar það aflamagn sem í þær hefur farið renni í þennan varasjóð.

„Lagt er til að þetta verði gert í skrefum á tveggja ára tímabili til að veita handhöfum skel- og rækjubóta tíma til aðlögunar," segir í greinargerð með frumvarpinu. Frá því að skel- og rækjubótum var fyrst úthlutað hafi hvort eð er „verið gengið út frá því að um tímabundna ráðstöfun hafi verið að ræða".

Meðal þeirra útgerða sem fengið hafa rækju- og skelbætur eru Agustson ehf. og Þórsnes ehf. í Stykkishólmi. Lögmannsþjónustan Logos ritar umsögn um frumvarpið fyrir hönd þessara tveggja fyrirtækja. Þar segir að fyrirtækin tvö telji „að ákvæði frumvarpsins um afnám skelbóta feli í sér ólögmæta skerðingu á stjórnarskrávörðum réttindum, bæði atvinnuréttindum og eignaréttindum.“ Bent er á að þegar löggjafinn ákvað á sínum tíma að greiða skyldi skelbætur sættu fyrirtækin „á sama tíma skerðingu á öðrum aflaheimildum. Niðurfelling skelbóta nú felur þannig í sér ótvíræða skerðingu á réttindum umbjóðanda okkar, sem verður ekki gerð bótalaust.“

LS bendir á að með tímanum hafi eignarhald sumra þeirra báta sem fengu þessar bætur á sínum tíma breyst, því bátar hafi verið seldir og bæturnar með. Tillaga LS er sú að afnám bóta taki „eingöngu til framangreinda útgerða og þeirra aðila sem ekki hafa fullnýtt bætur með veiðum.“