mánudagur, 27. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þörf fyrir endurnýjun í smábátaflotanum

Guðjón Guðmundsson
1. ágúst 2021 kl. 08:00

Særýmisbáturinn sem Nautic hefur hannað og kerfið hefur hafnað.

Segir reglur um minni báta eins og stagbættan bútasaum

Samgöngustofa hefur hafnað teikningu skipahönnunarfyrirtækisins Nautic að línubát úr stáli fyrir krókaaflamarkskerfið þar sem hann uppfyllir ekki flókna reglugerð um útreiknaða brúttótonna tölu. Alfreð Tulinius, stjórnarformaður Nautic og skipahönnuður, segir reglugerð sem gildir um brúttótonna mælingu báta sem eru allt að 24 metrar að lengd, í besta falli eins og stagbættan bútasaum.

„Það er reglugerðarverk á Íslandi, sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir, að væri orðið eins og gamalt bútasaumsteppi sem hefur verið stagað í fram og til baka. Við vorum með bát, sem við upphaflega hönnuðum fyrir rússneska útgerð, sem við töldum henta inn í þetta kerfi. Ég vann út frá reglugerð frá 1997 og áttaði mig ekki á því að breytingareglugerð hafði tekið gildi árið 2014 þar sem kynnt var til sögunnar nýtt hugtak varðandi lengd báta, „tonnalengd“ sem er viðbót við fjórar aðrar mismunandi tegundir lengdar á skipum. Nýja lengdin sem bættist við 2014, tonnalengd, er 96% af mestu lengd þess skips sem um ræðir. Með þessari breytingu voru áður veittar rýmkanir í mælingu skipa, sem voru leyfðar þegar farið var að setja flottanka aftan við trefjaplastbátana vegna aukinnar þyngdar þeirra og svalir að aftan ofan við þilfarið til þess að auka vinnupláss, skertar til muna. Núna fæst tonnatala báts í þessu kerfi með því að margfalda tonnalengdina í öðru veldi með breidd bátsins og stuðlinum 0,031.“

„Báturinn sem við hönnuðum er innan við 15 metrar að mestu lengd, en þó með minni skráningalengd. Þessi síðasta breyting á reglugerðarverkinu sér samt til þess að hann passar ekki óbreyttur inn í kerfið hér á Íslandi. Á Norðurlöndunum hafa tonnamörkin verið fjarlægð úr svipuðum reglugerðum og er eingöngu miðað við lengdartakmörkin, 15 metra. Með því að taka tonnamörkin út er hægt að hanna skip sem er betra sjóskip með meira vinnuplássi,“ segir Alfreð.

Fáránleiki reglnanna

Hann segir það skyldu sína sem fagmanns að benda á fáránleika reglnanna sem lúta að bátum í undir 30 tonna flokknum. Væri bátur hannaður inn í þetta kerfi eingöngu út frá reglugerðum, öll sjónarmið um sjóhæfni virt að vettugi en stefnt að því að ná sem mestu vinnuplássi, fengist meira flatarmál með því að hafa bátinn 10 metra langan og 10 metra breiða, en tæplega þó því slíkur bátur myndi lenda í 31 tonni. Í slíkum bát, ferköntuðum fleka, yrði um 100 fermetra vinnupláss. Eðli málsins samkvæmt myndi enginn hanna slíkan bát. En reglugerðin stýri allri hönnun í þessa átt. Ekkert í reglugerðinni segir til dæmis að lengd báts þurfi að vera meiri heldur en breidd hans.

„Gefum okkur að ég færi alla leið innan þessarar sérstöku veraldar og myndi einfaldlega kalla lengdina breidd og breiddina lengd. Lengdin kemur jú í öðru veldi í reiknijöfnunni.  Þannig að með svona nálgun þá gætum við gert bát sem er 7 metra „langur“ og tæpir 20 metrar á „breidd“ og hann myndi smella inní tonnaregluna.  Í svona skip er hægt að setja framdrifsbúnað þannig að ekki skiptir máli hvort því er siglt út á hlið eða áfram. Ég gæti þess vegna hannað „stefni“ á bakborðssíðuna og „skut“ á stjórnborðssíðu. Stærsta vandamálið yrði sennilega staðsetning á siglingaljósum og í hvaða átt væru gerðar stöðugleikakröfur, til hliðar eða fram og aftur. En í framhaldinu yrði það almannarómur að hann Alfreð Tulinus væri endanlega orðinn brjálaður, og farinn að sigla bátunum sínum út á hlið. Auðvitað er þetta fáránleg hugmynd en út frá reglugerðinni er hún bara alls ekki fáránleg. Önnur hugmynd er útdraganlegur skutur sem væri að jafnaði inni en væri skotið út meðan á veiðum stæði. Hvernig væri svona bátur mældur? Það er ekkert um þetta í reglugerðinni. Það sér það væntanlega hver heilvita maður að þessi reglugerð er ennþá vel götótt þó stagbætt sé.

Særýmisbátar í stað hraðfiskibáta

Alfreð telur líklegt að reglugerðarverkið hér á landi sé sett saman út frá einhverjum óræðum hagsmunum. Hagsmunasamtök smábátaeigenda ættu að beita sér fyrir því að menn sæki fiskinn á eðlilegum vinnutækjum. Krókaaflamarkskerfið hafi að stærstum hluta byggst upp í kringum hraðfiskibáta sem smíðaðir eru úr plasti. Alfreð er þeirrar skoðunar að þetta kerfi kalli á endurnýjun og endurskoðaða hugsun. Tveir eða fleiri aðilar innan þessa kerfis gætu viljað sameina krafta sína og fjárfesta í einum bát og sameinast um reksturinn. Með því takmörkuðu þeir fjárfestingaþörfina og ykju hagræðið í rekstrinum.

  • Fyrirtæki Alfreðs Nautic Rus hefur hannað togara fyrir rússneska útgerðarrisann Norebo Group í tíu skipa raðsmíðaverkefni. Hér er Alfreð við líkan af Kapitan Sokolov á skrifstofu sinni. Mynd/Steinar Tulinius

„Hraðfiskibátarnir lúta öðrum lögmálum en gilda um svokallaða særýmisbáta. Þeir eiga að geta planað á leiðinni út á mið og jafnvel heim á leið af miðunum. Þetta þjónaði tilgangi á sínum tíma þegar veiðarfærabúnaður, annar búnaður og afli var mun takmarkaðri en nú er. Þróunin hefur verið sú að aukinn búnaður er settur í þessa báta og þar með talin sjálfvirkur línubúnaður, stærri vélar og beitingavélar með um 20 þúsund krókum. Þeir eru því orðnir mjög öflug iðnaðartæki. Aflinn þyngir einnig bátinn þannig að í besta falli nær hann einhverri plönun á leið á mið en örugglega ekki á leiðinni í land. Það hefur sýnt sig að plastbátarnir hafa mikla þörf fyrir viðhald, sérstaklega eftir að í þá hefur verið hlaðið búnaði. Það er ekkert óeðlilegt við það. Bátarnir eru undir miklu álagi, sigla á miklum hraða, skella af miklu afli á öldurnar og eru orðnir þungir út af búnaði og afla. Endurnýjunarþörfin liggur því í særýmisbátum sem lúta lögmálum Newtons og Arkimedesar. Þeir ganga ekki út á mikinn ganghraða, í besta falli 8-10 hnútar. Þeir byggja á því að viðhalda góðum stöðugleika, góðu fríborði og góðu vinnuplássi. Særýmisbátar úr plasti eru ekki endilega besta lausnin því, vegna þess hve plast er létt smíðaefni þarf að þyngja þá mikið með kjölfestu og þá er best að ná þyngdaraukningu með byggingarefninu sjálfu. Ef við ætlum að bjóða útgerðaraðilum í þessum útgerðaflokki að fjárfesta í særýmisbátum fyrir einhvers staðar á bilinu 350 til 400 milljónir króna, þá ber okkur siðferðisleg skylda til að hafa bátana í einhverju skikki, og þá reglugerðir sem hafa slík markmið. Þetta er því miður hvorugt til staðar í dag,“ segir Alfreð.