föstudagur, 14. maí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tveir þorskstofnar flækja málið

Guðsteinn Bjarnason
3. maí 2021 kl. 07:00

Í norskri veiðistjórn er þorskinum skipt í tvo meginstofna. MYND/Óskar P. Friðriksson

Norðmenn missa MSC-vottun á þorsk- og ýsuveiðar.

Norðmenn hafa misst sjálfbærnivottun á þorsk- og ýsuveiðar innan tólf mílna, en utan tólf mílna hefur vottunarskírteini ýsuveiða verið framlengt um fimm ár og vottunarskírteini þorskveiða verður framlengt sjálfkrafa tímabundið þangað til skorið hefur verið úr ágreiningsefni sem upp er komið.

Það munar um þessa vottun fyrir Norðmenn vegna þess að 65 prósent af lönduðum þorski í Noregi hefur verið veiddur innan 12 mílna og 25 prósent af ýsuaflanum.

Mögulega gætu Norðmenn þó náð að endurheimta vottanir á allar þorsk- og ýsuveiðar áður en næsta vertíð hefst snemma næsta árs.

Í norskri veiðistjórn er þorskinum skipt í tvo meginstofna. Annars vegar er innfjarðþorskurinn sem er staðbundinn þorskur og veiddur innan 12 mílna, hins vegar Barentshafsþorskurinn sem er farþorskur. Hann kemur alltaf á sama árstíma, í janúar eða febrúar, suður til Lofoten úr Barentshafi og veiðist þar þangað til í apríl eða svo.

Innfjarðarþorskur í vanda

Ástandið á innfjarðaþorskinum hefur ekki verið gott og þess vegna er ekki hægt að votta veiðar úr honum. Vandinn er sá að þegar Barentshafsþorskur er veiddur innan tólf mílna er ekki hægt að skilja á milli hans og innfjarðarþorsksins, og sömuleiðis er ekki hægt að skilja á milli þessara tegunda í meðafla með ýsuveiðum.

Norskar þorsk- og ýsuveiðar voru fyrst vottaðar árið 2010, til fimm ára í senn, bæði innan og utan tólf mílna línunnar. Nú er komið að þriðju framlengingu en að sögn Gísla Gíslasonar, svæðisstjóra Marine Stewardship Council (MSC) á Íslandi, var einungis óskað eftir endurvottun á veiðum utan tólf mílna vegna þess að skilyrði til þess að halda vottun innan tólf mílna hafa ekki verið uppfyllt.

Það eru MSC-samtökin sem semja staðlana sem sjálfbærnivottanir fiskveiða eru miðaðar við, en óháð vottunarfyrirtæki gefa síðan út skírteinin.