mánudagur, 23. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tvöfalt högg fyrir útgerðina

Guðjón Guðmundsson
29. október 2020 kl. 08:00

Reynt verður að lyfta skipinu í dag en líklega er það gott sem ónýtt. Mynd/Þorgeir Baldursson

Drangur ÁR sennilega ónýtur. Reynt að lyfta skipinu í dag.

„Mér þykir frekar sennilegt að skipið sé ónýtt. Það fer sjór um allt, allar raflagnir ónýtar og skola þyrfti út vél, ljósavél og gíra. Ég er ansi hræddur um að upphæðir vegna framkvæmda af því tagi færu hratt yfir verðmæti sjálfs skipsins,“ segir Davíð Freyr Jónsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Aurora Seafood sem er frumkvöðlafyrirtæki í nýtingu sæbjúgna.

Fyrirtækið hafði síðasta eina og hálfa árið lagt miklar fjárhæðir í lagfæringar og endurbætur á skipinu þannig að tjónið er mikið. Starfsemi Aurora Seafood hefur stöðvast meðan verið er að gera tilraunir til að ná Drangi ÁR upp, en það sökk í höfninni á Stöðvarfirði á sunnudag.

Aurora Seafood á einnig skipið Klett ÍS sem var við sæbjúgnaveiðar fyrr í haust. Davíð Freyr segir að hugsanlega verði skipið notað til að klára sæbjúgnavertíðina.

Grundvelli kippt undan veiðunum

Leyfilegur heildarafli á sæbjúgum hefur aldrei farið mikið yfir 2.000 tonn á ári á skilgreindum svæðum. Undanfarin ár hafa skipin leitað nýrra veiðisvæða og höfðu heimild til að veiða utan skilgreindra svæða umfram útgefinn leyfðan heildarafla. Með þessu móti hefur heildarveiðin farið upp í rúmlega 5 þúsund tonn á ári að jafnaði síðustu ár. Í ágúst síðastliðnum var gefin út reglugerð sem kveður á um bann við veiðum utan þekktra veiðisvæða. Þó er heimilt að sækja um leyfi til tilraunaveiða utan skilgreindra svæða.

Davíð Freyr segir tilraunaveiðarnar þeim annmörkum háðar að einungis megi veiða lítið magn og undir þungum skilyrðum og takmörkunum. Kostnaður hefur með þessu farið langt fram úr tekjum af því að finna ný veiðisvæði. Útgerðirnar hafa þó haldið tilraunaveiðunum áfram í von um aukningu á leyfðum heildarafla í framtíðinni. Aurora Seafood neyddist til þess að leggja Kletti ÍS sem það hafði einnig gert út til sæbjúgnaveiða vegna þessara breytinga og minnkunar á heildarafla. Það er því ljóst að missir Drangs ÁR í Stöðvarfirði og reglugerðin frá því í sumar er tvöfalt högg fyrir útgerðina. Þessu til viðbótar er samdráttur í eftirspurn frá  mörkuðum fyrir afurðirnar.

Sæbjúgun hafa að langstærstum hluta verið seld til Kína. Davíð Freyr segir mikla umfram eftirspurn hafa verið eftir sæbjúgum á síðustu 4-5 árum. Verulega hafi nú dregið úr eftirspurninni sem megi rekja til heimsfaraldursins.