laugardagur, 16. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Undanþága skilyrði löndunar

Guðjón Guðmundsson
17. september 2021 kl. 16:00

Makríll er verðmætt hráefni en norsku skipin sigldu því til Færeyja í þetta sinn. Aðsend mynd

Frávísun norskra makrílbáta frá höfnum á Austurlandi

Bann við löndunum erlendra skipa á afla úr deilistofnum sem ekki hefur verið samið um, byggir á þriðju grein laga  frá 1998 um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, sem sett voru á sínum tíma til að sporna gegn ólöglegum fiskveiðum við Ísland, þar á meðal á karfaveiðum erlendra skipa á Reykjaneshrygg.

Sjávarútvegsráðherra getur veitt undanþágur frá þessum lögum, eins og gert hefur verið með kolmunna, en engin formleg undanþágubeiðni barst ráðuneytinu vegna kaupa Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði og Eskju á Eskifirði á makríl af norskum skipum um síðustu helgi.

Eins og greint hefur verið frá var norska skipinu Knester snúið frá Fáskrúðsfirði með um 700 tonn af makríl vegna þess að ekki hafði fengist undanþága frá lögunum. Norska skipið Havsnurp, sem Eskja hafði keypt af farm var á leið til landsins en var snúið við og lönduðu bæði skipin að endingu Færeyjum.

Grunnhugmyndin að baki laganna frá 1998 var að sporna gegn ólöglegum veiðum erlendra aðila eða veiðum úr deilistofnum sem Ísland er ekki samningsaðili að með því að koma í veg fyrir að þessir aðilar fengju þjónustu á Íslandi. Lögin ná yfir þá deilistofna sem ekki hefur verið samið um, eins og kolmunna og makríl.

Lögin eru þannig úr garði gerð að sjávarútvegsráðherra getur veitt undanþágur frá þeim. Það á til að mynda við um landanir rússneskra togara á karfa sem hafa verið umtalsverðar í Hafnarfirði síðastliðin ár. Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði hefur keypt um 165 þúsund tonn af kolmunna af Norðmönnum undanfarin fimm ár og hafa þau viðskipti farin fram á grunni undanþágu frá lögunum.

Samkvæmt tvíhliða samningum Íslands og Grænlands er grænlenskum skipum heimilt að landa á Íslandi makríl og síld.

Erfiðar tímasetningar

Samkvæmt heimildum Fiskifrétta er nauðsynlegt fyrir þá sem vilja kaupa makríl af erlendum skipum að sækja um undanþágu til þess. Viðskipti Loðnuvinnslunnar og Eskju við norsku makrílbátana fóru fram seint á laugardagskvöldi um síðustu helgi og því var ekki hægt að fara fram á undanþágu á þessum viðskiptum einfaldlega vegna opnunartíma. Sigling norska makrílbátsins Knester úr Síldarsmugunni til Fáskrúðsfjarðar tók nærri um 30 tíma. Hann var lagstur þar að bryggju á mánudagsmorgni. Þetta var í trássi við leiðbeinandi reglur sem sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út til Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar en ekki var farið eftir þeim þegar Landhelgisgæslan leyfði þessa hafnkomu. Landhelgisgæslan sneri því við fyrri ákvörðun um að heimila hafnkomu og var  norsku makrílbátunum var siglt til Færeyja þar sem þeir lönduðu.

Næraberg

Það er mörgum enn í minni þegar færeyska skipinu Nærabergi var synjað um þjónustu á Íslandi árið 2014. Tildrögin voru þau að fjöldi erlendra skipa voru við makrílveiðar í grænlenskri lögsögu. Þar sem Nærabergið var við veiðar úr sameiginlegum nytjastofni sem veiðist bæði innan og utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi, og íslensk stjórnvöld ekki gert milliríkjasamning um nýtingu á, var skipinu samkvæmt fyrrgreindum lögum óheimilt að koma til íslenskrar hafnar.  Undanþága var veitt vegna vélabilunar en skipinu var synjað um olíu, vatn og vistir hér á landi og skipverjarnir 34 fengu ekki að fara frá borði. Talsverðrar reiði gætti í Færeyjum vegna þessa máls. Íslendingum voru ekki vandaðar kveðjurnar í færeyskum fjölmiðlum. Íslensku lögin hafa einnig vakið reiði norskra útgerðarmanna sem hafa bréflega farið þess á leit við norska sjávarútvegsráðuneytið að íslenskum makrílskipum verði bannað að landa í Noregi rétt eins og norskum bátum er meinað að landa á Íslandi.

Fréttin birtist upphaflega í Fiskifréttum 9. september