miðvikudagur, 8. desember 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Úrbóta er þörf!

19. nóvember 2021 kl. 14:00

Gisli Gíslason

Uppsjávarveiðar í Norðaustur-Atlantshafi.

Gísli Gíslason, svæðisstjóri Marine Stewardship Council (MSC) í Norður–Atlantshafi, fjallar um þau óleystu úrlausnar efni sem er í stjórn fiskveiða á uppsjávarstofnum í Norðaustur-Atlantshafinu – og ræðir af hverju háværara ákall er nú komið fram frá markaðnum um að umbætur eigi sér stað í stjórn veiðanna.

Uppsjávarfiskar eru litlir fiskar en vegna þeirra eru miklar veiðar í Norður–Atlantshafi og umfangsmikil alþjóðleg viðskipti. Fiskur og fiskveiðar skipa stóran sess hjá öllum fiskveiðiþjóðunum sem stunda þessar veiðar.  Hagkerfi, menning og saga þeirra byggir að hluta eða jafnvel að miklu leyti á þessum gjöfulu fiskimiðum sem eru með þeim auðugustu í heimi. Hafrannsóknir hjá mörgum þessara þjóða eiga sér aldagamla sögu og kynslóð fram af kynslóð hefur sjávarútvegur byggt sinn rekstur á virðingu fyrir hafinu og þessum miklu auðlindum.

Vottanir afturkallaðar

Makríllinn, norsk-íslenska síldin og kolmunninn í Norðaustur–Atlantshafi eru vel þekktir uppsjávar fiskistofnar.  Þróuð fiskveiðiríki eru að aðilar að veiðunum en sjálfar fiskveiðarnar eru stundaðar af háþróuðum flota með fiskveiðiréttindi upp á milljarða virði í farteskinu.

Fyrir tveimur árum voru þessar veiðar með MSC vottun hjá helstu fiskveiðiþjóðunum.  Eins og velflestar MSC fiskveiðivottanir voru  þær háðar skilyrðum, sem fólu m.a. í sér að ríkin skildu koma upp með stjórnunarkerfi sem tryggði heildarveiði í samræmi við vísindalega ráðgjöf. Það hefur því miður ekki gengið eftir og því voru vottanirnar afturkallaðar af faggiltum óháðum vottunarstofum sem höfðu áður veitt skilyrta vottun.

Göngur hafa breyst

Þau ríki sem stunda veiðar úr þessum mikilvægu stofnum víkja, jafnvel í vaxandi mæli frá þeim viðmiðunum sem Alþjóða hafrannsóknaráðið (ICES) leggur til.  Þessi staða hefur verið að þróast á síðustu árum og áratugum og á rætur í samspili fjölmargra flókinna þátta. Fiskigöngur hafa breyst og trúlega hafa loftslagsbreytingar áhrif á útbreiðslu stofnana og hvar þeir finna sér æti. Þetta veldur togstreitu milli þjóða, og þannig hafa ekki náðst strandríkjasamningar um makrílveiðar síðan 2009. Engir heildarsamningar um skiptingu á afla hafa náðst um síldveiðar síðan 2012 og 2014 fór stjórnunin á kolmunnaveiðum sömu leið.   Á síðustu 25 árum hafa strandríkin aðeins náð samkomulagi um alla þessa þrjá meginstofna á fjögurra ára tímabili þ.e. 2006–2009.   Á þessu ári mun heildarafli allra fiskveiðiþjóða, vera eins og síðustu ár,  þ.e verulega umfram ráðgjöf, jafnvel sem nemur tugi prósenta.   Það hlýtur að vera þörf á að  stjórnmálamenn allra landa, sem hlut eiga að máli, taki nú öflugt frumkvæði og samstarfsvilja til að sigrast á þessum rótgróna vanda.

Frumkvæði fyrirtækja

Nú hafa sum fyrirtæki sem eru kaupendur á afurðum úr þessum veiðum tekið frumkvæði – en þar á meðal eru smásölufyrirtæki, sjávarútvegsfyrirtæki og fiskimjöls- og fóður framleiðendur. Bandalag þetta hefur fengið nafnið North Atlantic Pelagic Advocacy Group (eða NAPA). Fyrirtæki í þessum samtökum standa fyrir meira en 250 milljarða evra virði í innkaupum og eru með ákall um að fiskveiðiþjóðir fylgi vísindalegri ráðgjöf.  Það má spyrja, hvað þýðir þetta í raun og veru?  Þetta er ákall markaðarins til sjávarútvegsfyrirtækja og stjórnvalda um sameiginlega stjórnun þessara verðmætu fiskistofna verði út frá langtímasjónarmiðum sem styðja og vernda umhverfið og tryggja fyrirtækjunum sjálfbæra fiskveiði og þannig  öruggari framtíðar rekstrargrundvöll. Þegar fyrirtækin hafa skuldbundið sig til sjálfbærra veiða þá reiða þau sig á að ríkisstjórnir landanna sinni leggi sig fram um að gera slíkt mögulegt.

Meðlimir NAPA gefa út sín innkaupaviðmið – og margir gefa nú til kynna að þeir ætli að endurskoða innkaup á afurðum úr þessum veiðum ef ekki tekst að leysa úr núverandi þrátefli.   Þetta var kynnt á nýlegri málsstofu sem MSC hélt á Arctic Circle, en þar var m.a.  fjallað um skuldbindingar sem aðildarfyrittæki NAPA hafa gert og þar talaði einnig fulltrúi frá breska stórmarkaðnum TESCO og skilaboðin voru skýr: Óbreytt ástand mun hafa afleiðingar á markaði.  Ákallið var jafnframt hvatning til ríkja að koma með lausn og semja um skiptingu heildarafla og tryggja sjálfbærar veiðar.

Jákvæð skilaboð

Þau ríki sem stunda þessar veiðar eru meðal háþróuðustu þjóða heims í fiskveiðum, hvort heldur sem litið er til stjórnunar og framkvæmdar, stjórnskipulags eða vísindalegrar sérþekkingar. Það er því í raun óafsakanlegt að þessi ríki geti ekki komið sér saman um raunhæfar lausnir með það að markmiði að heildarveiði sé í samræmi við vísindalega ráðgjöf sem sótt er til ICES.  Þegar allt kemur til alls mun samkomulag allra aðila verða fiskveiðiþjóðum til mikilla hagsbóta, – því það myndi tryggja viðgang þessara gjöfulu fiskimiða til framtíðar,  gefa góð skilaboð til kaupenda af vöru úr þessum veiðum og gefa gott fordæmi fyrir aðrar alþjóðlegar fiskveiðar sem glíma við svipuð óleyst úrlausnarefni.

Nýtt og ánægjulegt

Nú hafa fiskveiði- og strandríkin, sem stunda þessar veiðar, lokið haustfundum þar sem að áfram er samkomulag um að ráðgjöf ICES skuli vera viðmið fyrir heildaraflmark allra þriggja uppsjávarstofnana.  Enn hafa ríkin ekki náð samkomulagi hvernig skipta skuli þessu aflamarki.  En það sem er nýtt og ánægjulegt er að ríkin hafa ákveðið að setja á fót vinnuhópa. Þannig heldur vinnan áfram og reynt verður til  þrautar að ná samkomulagi.  Þessu ber að fagna því „Úrbóta er þörf“.

Höfundur er svæðisstjóri Marine Stewardship Council (MSC) í Norður–Atlantshafi.