fimmtudagur, 25. febrúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veður og aflabrögð þokkaleg miðað við árstíma

20. janúar 2021 kl. 16:00

Vestmannaey VE að koma til hafnar. Mynd/Guðmundur Alfreðsson

Bergey VE, Vestmannaey VE og Gullver NS að landa góðum afla.

Ísfisktogararnir Bergey VE og Vestmannaey VE komu báðir til heimahafnar í gær með fullfermi eða á milli 70 og 80 tonn. Bæði skip munu síðan halda til veiða á ný á morgun.

Heimasíða Síldarvinnslunnar greinir frá þessu og ræddi við þá Birgi Þór Sverrisson, skipstjóra á Vestmannaey, og Jón Valgeirsson, skipstjóra á Bergey. Birgir sagði að veður hefði verið þokkalegt í veiðiferðinni miðað við árstíma.

„Það var engin blíða en varla hægt að kvarta. Lengst af var austan kaldi og dálítill fræsingur. Aflinn hjá okkur var mest ýsa og ufsi. Við byrjuðum að veiða á Gerpisflaki og sigum síðan suður á Breiðdalsgrunn. Þarna var ágætis nudd. Við enduðum síðan á Öræfagrunni,“ sagði Birgir Þór.

Jón tók undir með Birgi og sagði vart unnt að kvarta undan veðri. „Við lentum í brælu í upphafi túrsins en þá vorum við að veiða á Brettingsstöðum, en síðan var veðrið þokkalegt. Við byrjuðum í þorski en héldum síðan suður með Austfjörðum og fengum mest ýsu. Það var sérstaklega staldrað við á Gerpisflakinu. Við kláruðum síðan túrinn í Skeiðarárdýpinu,“ sagði Jón.

Í annarri frétt heimasíðu Síldarvinnslunnar segir að ísfisktogarinn Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði í morgun með tæplega 96 tonn. Aflinn er mestmegnis þorskur og ufsi. Landað verður úr skipinu í dag og það mun síðan halda til veiða á ný í kvöld.

Heimasíðan ræddi stuttlega við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra og spurði fyrst hvernig túrinn hefði gengið.

„Hann gekk svona þokkalega en við vorum fimm daga að veiðum. Við hófum veiðar á Öræfagrunni og enduðum á Glettinganesflakinu. Mér finnst vanta dálítinn kraft í þorskinn, það hefði mátt ganga betur að eiga við hann. Það liggur fyrir að loðna er komin hér fyrir austan land því það er talsvert af henni í fiskinum,“ segir Rúnar.

Að sögn Ómars Bogasonar hjá frystihúsinu á Seyðisfirði fer vinnslan þar vel af stað og enginn skortur á hráefni. Segir hann mjög mikilvægt að fyrirtækin á Seyðisfirði séu farin að starfa eftir skriðuföllin og lífið á staðnum sé óðum að nálgast eðlilegt horf.